Innlent

Flestir vilja Kristin í nefndir

Meirihluti þjóðarinnar er andvígur þeirri ákvörðun meirihluta þingflokks Framsóknarflokksins að neita Kristni H. Gunnarssyni alþingismanni um setu í nefndum Alþingis, samkvæmt skoðanakönnun sem Fréttablaðið lét framkvæma á laugardag. Tæp átján prósent þeirra sem tóku afstöðu voru fylgjandi þessari ákvörðun, en rúmlega 82 prósent andvíg. Svo til enginn munur var á afstöðu kynjanna, en aðeins meiri munur er á afstöðu fólks á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Um 16 prósent svarenda á landsbyggðinni sögðust styðja ákvörðun meirihluta þingflokksins samanborið við tæp 19 prósent höfuðborgarbúa. Ef einungis er litið til þeirra sem sögðust styðja Framsóknarflokkinn er afstaðan ekki eins afdráttarlaus. Tæp 49 prósent framsóknarmanna sögðust styðja ákvörðun meirihluta þingflokksins en um 51 prósent voru því andvíg. Þó verður að setja þann fyrirvara á að stuðningsmenn Framsóknarflokksins í könnuninni eru of fáir til að meta afstöðu flokksmanna. Úrtakið í könnuninni var 800 manns. Það skiptist jafnt milli kynja og hlutfallslega eftir kjördæmum. Spurt var: Styður þú ákvörðun meirihluta þingflokks Framsóknarflokksins um að neita Kristni H. Gunnarssyni alþingismanni um setu í nefndum Alþingis? Svarhlutfallið var 74,5 prósent.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×