Innlent

Hitamet gæti fallið á morgun

Hitabylgja hefur skollið á landsmönnum og geta þeir átt von á 25 stiga hita fram eftir vikunni. Tæplega 30 ára hitamet í Reykjavík gæti fallið á morgun. Það fór vart framhjá nokkrum manni með rænu í dag að það er hitabylgja yfir landinu og fór hitinn vel yfir 20 stig í höfuðborginni, og víða hærra.  Trausti Jónsson segir þetta stafa af hlýju lofti sem komi að sunnan á tilviljunarkenndan hátt eins og stundum gerist en þetta er með því mesta sem sést hefur í ágústmánuði. Trausti segir útlit fyrir að hitinn í höfuðborginni verði enn meiri á morgun en í dag en síðan fari hann lækkandi. Víðast hvar annars staðar verður þó heitt eitthvað lengur, helst á vestan- sunnan- og norðanverðu landinu. Hitinn gæti jafnvel farið upp í 25 stig. Hitametið í Reykjavík er 24,3 gráður og var það sett 9. júlí árið 1976. Trausti segir að hitametið sé hugsanlega í hættu ef mistrið sem hvíldi yfir borginni í dag minnki og sólin fari að skína. Hann tekur þó fram að sólin sé farin að lækka á lofti og skilyrði til að slá hitamet því ekki jafn góð og í lok júní og byrjun júlí. Trausti segist ekki geta neitað því að það sé skemmtilegra að spá í veðrið í svona góðviðri. Aðspurður hvort hann upplifi meira þakklæti frá fólki segir hann fólk alltaf vilja meira.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×