Innlent

Eiga 801 milljón í verkfallssjóði

Um 801 milljón er í vinnudeilusjóði Kennarasambands Íslands. Allir kjarasamningar félaga innan sambandsins eru lausir og hafa grunnskólakennarar ákveðið að fara í verkfall náist ekki samningar fyrir 20. september. Kennarasambandið og launanefnd sveitarfélaganna funda eftir sumarleyfi hjá ríkissáttasemjara á morgun. Eiríkur Jónsson, formaður KÍ, segir að náist ekki samkomulag um kjaramál kennara fyrir tuttugasta næsta mánaðar eigi hann von á löngu verkfalli. "Sagan kennir okkur það að ef okkur tekst ekki að afstýra verkfalli áður en það brestur á eru allar líkur á að það geti skipt mörgum vikum," segir Eiríkur. Verkfallsbætur kennara eru þrjú þúsund krónur fyrir hvern verkfallsdag fyrir félagsmann í fullu starfi en greitt er hlutfallslega fyrir hlutastarf, samkvæmt vefsíðu Kennarasambandsins. Eiríkur segir að þar sem fleiri félög séu innan sambandsins en Félag grunnskólakennara hafi ekki verið tekin ákvörðun um hvernig greitt verði úr sjóðnum dragist verkfall á langinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×