Innlent

Láta veðrið ráða för

"Það er nánast komin hefð á þetta og við erum hvergi nærri hættir enn," segir Gylfi Árnason, forstjóri Opinna kerfa, en hann var á ferð um landið um síðustu helgi ásamt Jónasi G. Jónassyni, forstjóra Mode. Ferðast þeir báðir um leðurklæddir frá toppi til táar enda þeysa þeir um á mótorhjólum, Gylfi á Kawasaki og Jónas á Harley Davidson. Gylfi segir þá félaga ákveða slíkar reisur fyrirvaralaust en þetta er annað árið í röð sem þeir þeysa af stað frá Reykjavík án þess að vita fyrir víst hvar þeir enda. "Við ákveðum slík ferðalög ekki með neinum fyrirvara heldur hendumst á hjólin og tökum stefnuna þangað sem veðurfræðingar segja veðrið hvað best þá stundina." Þeir félagar voru á Egilsstöðum á laugardaginn og voru þá nýkomnir frá Kárahnjúkum þar sem þeir skoðuðu virkjunarframkvæmdirnar. Eru þeir báðir verkfræðingar að mennt og sögðu upplifun að hafa barið svæðið augum. "Hvort sem fólk er með eða á móti framkvæmdinni er alveg óhætt að mæla með ferð þangað upp eftir. Þarna er margt athyglisvert að gerast og í raun ómögulegt að sjá hversu viðamikið þetta er fyrr en viðkomandi hefur komið á staðinn og virt allt fyrir sér."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×