Innlent

Apple kærir íslenska ríkið

Stjórnendur Apple-tölvuverslunarinnar ætla að kæra íslenska ríkið fyrir tollaflokkun á Ipod margmiðlunarlófatölvunni. Tollstjórinn hefur skilgreint tækið sem upptökutæki sem hefur þær afleiðingar að fáir kaupa það hér á landi. Ipod er nýjasta æðið. Talið er að um 6000 manns eigi slíkt tæki hér á landi en fæst þeirra eru keypt á Íslandi. Ástæðan: Þau eru of dýr. Íslenskufræðingar vilja helst kalla þetta tæki lófaspilara en það nær kannski ekki alveg yfir það sem ipod gerir. Hann spilar tónlist, getur haldið utan um leiki, dagbók, símanúmer og síðasta útgáfan af honum geymir myndir í miklu magni. En það er flokkun hans hjá tollstjóra sem afspilunar- og upptökutæki sem veldur því að hann ber mikinn toll og er dýrari hér á landi en annars staðar. Söluaðilar hans fullyrða að munurinn sé fimmtíu prósent á verði. Bjarni Ákason, stjórnarformaður Apple á Íslandi, segir að gengið hafi verið á milli manna í stjórnsýslunni og að þeir séu allir sammála Apple, en það vilji enginn gera neitt í málinu. Það sem þá sé hægt að gera er að fara dómstólaleiðina til að málið verði leiðrétt. Bjarni segir að þetta rokseljist út um allan heim - nema á Íslandi. Þær upplýsingar fengust hjá tollstjóra í dag að nýjustu afbrigði Ipod, þ.e.a.s. sá sem geymir myndir, yrði að skoðast alveg sérstaklega. Til greina kæmi að endurskoða tollaflokkunina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×