Innlent

40 hafa slasast í hálkunni

Yfir 40 manns hafa þurft að leita á slysadeild í morgun vegna slysa tengdum hálku. Gangandi vegfarendur eru varaðir við því að launhált sé á gangstéttum og götum. Frá klukkan átta í morgun og fram undir hádegi höfðu yfir 50 manns komið á slysadeildina í Fossvogi og þar af yfir 40 vegna meiðsla sem hlotist höfðu af falli í þeirri miklu hálku sem nú er úti. Þegar fréttastofan hafði samband við slysadeild var hátt í tíu manna biðröð í afgreiðslunni, auk þess sem aðrir tíu biðu í biðstofu. Kristín Sigurðardóttir, læknir á slysadeildinni, segir að öngþveiti hafi skapast um tíma, enda aðeins tveir læknar á vakt, en nú hefur sá þriðji bæst í hópinn. Hún segir alls ekki einungis um meiðsl á höndum og fótum að ræða heldur hafi margir hreinlega flogið á hausinn og meiðst á baki eða hnakka. Til allrar lukku hafi þó engin slasast lífshættulega. Kristín segir þorra þeirra sem komið hafa á slysadeild vera ungt fólk, enda virðist eldra fólkið vara sig betur þegar út er haldið. Enn er mjög hált úti og er fólk beðið um að hafa varann á ef ætlunin er að fara út að ganga, enda launhált víða og oft mjög erfitt að átta sig á hættunni fyrr en um seinan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×