Innlent

Niðurstaða skoðunar send lögreglu

Lögreglunni í Búðardal verður í dag send niðurstaða skoðunar sérfræðinga Frumherja á bremsubúnaði vörubílsins sem gjöreyðilagðist þegar hann fór fram af einbreiðri brú yfir Laxá í Laxárdal á þriðjudaginn. Jón Hjalti Ásmundsson, tæknistjóri ökutækjasviðs Frumherja, skoðaði bílinn í gær ásamt skoðunarmanni í Borgarnesi. Jón Hjalti vill ekkert gefa upp um niðurstöður skoðunarinnar. Lögreglan á Búðardal segir að við fyrstu sýn hafi bremsubúnaðurinn virst nýlegur en beðið er skýrslu Frumherja. Jón Hjalti segir að fleiri atriði geti haft áhrif á hvort bíll nái fullri hemlun en hversu nýlegur búnaðurinn er og nefnir hann þar ýmsar stillingar sem þurfi að vera réttar. Í fréttum Stöðvar 2 og Bylgjunnar hefur komið fram að Sigvaldi Arason, eigandi vörubílsins, hafi fengið mánaðarfrest til að láta gera við bremsurnar sem voru ekki í fullu lagi við skoðun 19. apríl. Sigvaldi hefur sagt bílinn hafa verið í toppstandi. Vörubíll sem kviknaði í fyrir utan Stykkishólm undir kvöld í gær var einnig í eigu Borgarverks, fyrirtækis Sigvalda. Tveir menn sluppu ómeiddir úr eldinum en bíllinn, og grafa sem var á palli hans, eru talin ónýt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×