Innlent

Hátt í 40 þúsund manns í göngunni

Hátt í fjörtíu þúsund manns tóku þátt í Gleðigöngu Hinsegin daga niður Laugaveg í dag og hefur þátttaka aldrei verið meiri. Mikil samkennd ríkti í göngunni og segja hommar og lesbíur viðhorf samfélagsins gagnvart þeim hafa gjörbreyst á síðastliðnum árum. Viðbúnaðarástand var um tíma vegna geðsjúks manns sem banaði samkynhneigðum manni fyrir nokkrum árum og var í leyfi af réttargeðdeildinni að Sogni. Hinsegin dagar, eða Gay Pride, eru haldnir hátíðlegir víða um heim um þetta leiti árs. Hápunkturinn hér á landi er Gleðigangan niður Laugaveg, sem er gengin bæði til að fagna öryggi og frelsi homma og lesbía, en einnig til að sýna samstöðu með samkynhneigðum í þeim ríkjum heims þar sem fólk er kúgað og því misþyrmt vegna kynhneigðar sinnar. Það var mikill samkennd sem ríkti í göngunni í dag - enda af sem áður var að samkynhneigðir þurfi að skammast sín og fela tilfinningar sínar. Viðbúnaðarástand var um tíma vegna geðsjúks manns sem vistaður er á réttargeðdeildinni að Sogni, en hann banaði samkynhneigðum manni fyrir nokkrum árum. Maðurinn hafði fengið helgarleyfi frá Sogni og leitaði lögregla hans í Reykjavík í morgun og hafði samband við stjórnendur Hinsegin daga. Ekki kom þó til þess að menn þyrftu að velta því fyrir sér að fresta göngunni, þar sem maðurinn fannst í strætisvagni áður en hátíðahöldin hófust í dag. Gangan þótti takast með afbrigðum vel og segir lögreglan að hegðun þeirra 30-40 þúsund gesta sem tóku þátt hafi verið til mikillar fyrirmyndar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×