Innlent

3000 leita að vitsmunaverum

Þrjú þúsund Íslendingar taka daglega þátt í leit að vitsmunaverum á öðrum plánetum. Á þriðja hundrað erlendra vísindamanna mun sækja ráðstefnu um byggilega hnetti, sem hefst í Háskólabíói á morgun. Vísindamennirnir sem hingað koma eru frá mörgum þekktustu fræðasetrum heimsins. 90 fyrirlestrar verða fluttir í málaflokkum eins og upphaf og þróun lífs á jörðinni, líf á öðrum hnöttum, vitsmunaverur utan sólkerfisins. Það er því víða komið við. Gunnlaugur Björnsson, stjarneðlisfræðingur segir að fjallað verði um líf við mjög erfið skilyrði og lífvænleg skilyrði í öðrum sólkerfum en okkar. Mest eru þetta fræðilegir fyrirlestrarar, enda eru fyrirlesararnir stjörnufræðingar, líffræðingar, eðlisfræðingar, stjarneðlisfræðingar, og þar frameftir götunum. Á þriðjudagskvöld gefst almenningi tækifæri til þess að hlusta á yfirlitsfyrirlestra nokkurra fræðimannanna, sem þá munu reyna að tala á mannamáli. Áhugi á geimnum virðist nægur á Íslandi. Dæmi um það er að um 3000 Íslendingar taka daglega þátt í því að leita að vitsmunaverum í geimnum, með því að veita aðgang að umfram reiknigetu tölva sinna, með því að setja upp forrit sem tengir milljónir tölva um allan heim í net, sem vinnur við að þýða merki utanúr geimnum, í von um að einn dag greinist merki frá öðrum vitsmunaverum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×