Innlent

Íslenskur olíuhreinsunarplógur

Fyrrverandi vélstjóri á olíuflutningaskipi hannaði olíuhreinsunarplóg í hjáverkum. Eftir að hann hætti að vinna hefur hann einbeitt sér að því að markaðssetja plóginn og hafa erlend fyrirtæki sýnt honum áhuga. Plógurinn Elí 2000 var prófaður af slökkviliði höfuðborgarsvæðisins á olíusvæðinu við Örfirisey í morgun. Ólafur Ögmundsson, íslenskur yfirvélstjóri til margra ára á norsku olíuskipi, segist hafa farið að huga sérstaklega að tæki til olíuhreinsunar eftir eitt mesta olíuslys sögunnar, þegar olíuskipið Exxon Valdez strandaði við Alaska árið 1989, og rúmir 40 milljón lítrar fóru í sjóinn. Ólafur segir hugmyndina byggjast á hvirfiláhrifum, að myndaður sé yfirborðsstraumur sem dregur til sín olíuna, en búnaðinum er komið fyrir undir yfirborði. Fyrir leikmann minnir þetta einna helst á þegar tappi er tekinn úr baði. Iðntæknistofnun og Fjárlaganefnd Alþingis hafa styrkt markaðssetningu erlendis. Markaður er lítill hér á landi þótt vissulega sé það öryggisatriði að hafa olíuhreinsibúnað tiltækan á nokkrum stöðum umhverfis landið en stykkið kostar á fimmtu milljón króna. Meðal þeirra sem hafa sýnt plógnum áhuga er eitt stærsta olíuhreinsunarfyrirtæki í heiminum, sem mun prófa Elí 2000 í Southampton á næstunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×