Innlent

Lausn vímuefnavandans samfélagsleg

Lausn vímuefnavandans felst ekki í að skapa fleiri vistunarrými fyrir unglinga á stofnunum, heldur þarf að auka þjónustu úti í samfélaginu. Þetta er mat Harvey Milkman, bandarísks prófessors í sálfræði, sem staddur er hér á landi og boðar breyttan hugsunarhátt í vímuvörnum. Dr. Milkman starfar við háskóla í Kólóradó í Bandaríkjunum en í fylkinu er notast við aðferðir hans við að berjast gegn vandamálum tengdum eiturlyfjanotkun unglinga. Þær þykja skila góðum árangri og byggjast í stuttu máli á því að bjóða unglingum upp á eitthvað betra og skemmtilegra en dóp. Milkman segir að með þessu vilji hann virkja sköpunargáfu unglinganna og þá náttúrulegu vímu sem fæst með listum, tónlist, leiklist og kveðskap. Hann segist vilja virkja ungmennin og láta reyna á þau á jákvæðan hátt. Síðan fái þau viðbrögð frá samfélaginu. Hann segir þróunina víðast hvar vera í þá átt að fækka vistunarrýmum en auka þjónustu í samfélaginu, enda skili það betri árangri. Þetta sé samfélagslegt átak. Mörgum ungmennum líði ekki vel og fái ekki viðeigandi meðferð á stofnunum. Hann segir meðferð sína henta betur því þegar þau fari á stofnun finnist þeim þau vera afbrigðileg. Þetta segir Milkman að sé ekki til bóta og því sé betra fyrir marga að fá meðferð úti í samfélaginu. Milkman er vel þekktur meðal þeirra sem starfa að velferð barna á Íslandi og hefur komið hingað meðal annars í boði heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis. Nú mun hann kynna hugmyndir sínar á fundi Norrænu Ráðherranefndarinnar. Hann segist finna fyrir því að hópur starfsbræðra sinna hér á landi aðhyllist nýja hugmyndafræði, sem er ekki sú sem fær hvað mestan stuðning hér á landi. Hann segir að kynna þurfi gögnin fyrir ríkisstjórninni til að hún geti brugðist við á réttan hátt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×