Innlent

Undrast veðurblíðu

Veðrið hefur sett mikinn svip á mannlífið síðustu daga. Erlendir ferðamenn á Þingvöllum eru undrandi yfir miklum hlýindum og ferðamenn í Reykjavík segja veðrið hafa komið þeim skemmtilega á óvart. Erill hjá meindýraeyði Veðurblíða hefur sett mikinn svip á líf landsmanna síðustu daga. Dagurinn í gær var víða hlýjasti ágústdagur síðan mælingar hófust. Erlendir ferðamenn hafa ekki farið varhluta af veðurblíðunni og margir lýst mikilli undrun vegna hlýinda undanfarinna daga að sögn Kötlu Sigurðardóttur, landvarðar á Þingvöllum. "Fólk minnist á hitann og spyr hvort hann sé ekki óvenjulegur," segir Katla en hitinn á Þingvöllum mældist 29 stig í gær. "Það var svo heitt í þinghelginni að fólki var farið að líða dálítið illa." Að sögn Kötlu kippa ferðamenn frá löndum eins og Spáni og Ísrael sér þó ekki upp við hitann. Öðru máli gegni um norður-evrópsku ferðamennina. "Fólkið sem ætlaði að koma hingað í kuldann er eiginlega alveg að farast," segir Katla. Þeir erlendu ferðamenn sem Fréttablaðið ræddi við í Reykjavík í gær voru sammála um að veðrið hafi komið þeim skemmtilega á óvart. "Við tókum einungis hlý föt með okkur til landsins," sögðu tvenn þýsk hjón sem nutu veðurblíðunnar við sjávarsíðuna í gær. Ferðamaðurinn Linda Cunningham sagði veðrið í gær svipað því sem gerðist í heimalandi hennar, Skotlandi. "Við bjuggumst við því að hér yrði mjög kalt," segir Linda. "En þetta er alveg frábært." Meindýraeyðar höfðu einnig í nógu að snúast í veðurblíðunni í gær. "Svona útlandaveður skilar sér alltaf í fleiri útköllum," segir Anna Bergsteinsdóttir, starfsmaður Geitungabanans. "Þegar veðrið er gott heldur fólk sig meira utandyra og verður þar af leiðandi meira vart við flugurnar."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×