Innlent

Ekki sjálfsafgreiðsla út á landi

Bensínneytendur njóta ekki sjálfsafgreiðsluverðs á bensínstöðvum Olíufélagsins ESSO víða á landsbyggðinni. Pétur Steingrímson ætlaði sjálfur að dæla bensíni við stöðina í Varmahlíð í Skagafirði um síðustu helgi. "Þá var mér sagt að það stæði ekki til boða og ég yrði að greiða fyrir fulla þjónustu," segir hann. Verð með fullri þjónustu er 113 krónur fyrir lítra af 95 oktan bensíni. Á heimasíðu ESSO má finna lista yfir bensínverð á nokkrum stöðvum ESSO. Þar segir: "Á öllum öðrum þjónustustöðvum ESSO um landið er tveggja krónu afsláttur af eldsneytislítra í sjálfsafgreiðslu." Þetta segist Pétur skilja sem boðið væri upp á sjálfsafgreiðslu á öllum bensínstöðvum félagsins. Heimir Sigurðsson hjá ESSO segir að ekki sé boðið upp á sjálfsafgreiðslu í öllum bensínstöðvum félagsins en það standi til bóta. Hann viðurkennir að orðalag sé óljóst á heimasíðunni og segir því munu verða breytt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×