Innlent

Ein hefur leitað til Stígamóta

Ein kona hefur leitað til Stígamóta vegna nauðgunar á útihátíð um verslunarmannahelgina, að sögn Guðrúnar Jónsdóttur hjá Stígamótum. "Það er eiginlega fyrst núna sem fer að koma að okkar þætti í þessum málum. Tilkynningar berast yfirleitt síðar og það er því ekki hægt að koma með neinar marktækar tölur núna. Í fyrra fengum við tilkynningar um tíu útihátíðarnauðganir og árið áður átta. Vonandi berast ekki fleiri tilkynningar í ár en það væri ekki í takt við reynslu okkar." Árið 2001 var tilkynnt um 21 nauðgun, þar af fjórtán tilfelli á Eldborgarhátíðinni, en það er eina skiptið sem Stígamótum hefur verið boðið á að vera á vettvangi á útihátíð. Guðrún segir að nærvera Stígamóta geti hafa skipt máli í tilfelli Eldborgarhátíðarinnar. "En við höfum bent á að það þarf að vera viðbúnaður og áfallahjálp til staðar, hverjir svo sem sinna því, og mótsgestir þurfa að vita af henni. Það er brú sem þarf að byggja."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×