Innlent

Umboðin ráða úrslitum

Tvö fyrirtæki, Rekstrarfélag Véla og þjónustu hf. og nýstofnað fyrirtæki, Vélar og þjónusta ehf., reyna að tryggja sér sömu umboðin og sömu viðskiptavini, að sögn Stefáns Bjarnasonar, fjármálastjóra Véla og þjónustu ehf. Fyrrnefnda fyrirtækið hefur verið lýst gjaldþrota. Talið er að heildarskuldir þrotabúsins nemi um milljarði. Hið nýstofnaða fyrirtæki er í eigu sömu manna og áttu fyrra fyrirtækið. Arnar Bjarnason, forsvarsmaður rekstrarfélags Véla og þjónustu hf., segir KB banka reyna að hámarka verðmæti þrotabúsins: "Það er ljóst mál að það verður eitthvað til úr þessu félagi. Framtíðarrekstur þess skýrist á næstu dögum," segir Arnar. Verið sé að flytja vörur og varahlutalager þrotabúsins úr verslun hins nýja fyrirtækis í annað húsnæði. Stefán segir KB banka hafa óverðskuldað sett fyrra fyrirtækið í þrot. Eigendurnir hafi því stofnað annað fyrirtæki og vinni að því að semja aftur við erlendu umboðin með hjálp Íslandsbanka og Glitnis. Hann segir heildarskuldir fyrirtækisins um milljarð en fyrirtækið hafi átt eignir í birgðum og útistandandi kröfum og öðru fyrir 600 milljónir. "Gjaldþrot fyrirtækisins er því að hámarki 300 til 400 milljónir," segir Stefán. Búið sé að semja við marga fyrri lánadrottna svo hægt sé að hefja starfsemi hins nýja fyrirtækis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×