Innlent

Fengu ekki lendingarleyfi í París: „Maður er alveg miður sín yfir þessu“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Stuðningsmenn Íslands í stúkunni í Frakklandi.
Stuðningsmenn Íslands í stúkunni í Frakklandi. vísir/vilhelm
Ekkert verður af flugi sem Grétar Sigfinnur Sigurðsson hafði skipulagt til Parísar vegna landsleiks Íslands og Frakklands á morgun. Ástæðan er sú að ekki fékkst lendingarleyfi fyrir fluginu frá flugmálastjórn í París. Hátt í 100 manns ætluðu að fara með vélinni.

„Þetta er auðvitað bara hrikalega erfitt. Ég fékk það staðfest í gærkvöldi frá flugmálastjórninni að það hefði ekki náðst að gefa út lendingarleyfi og þeir myndu bara skoða þetta á mánudaginn. Þá var þetta bara fallið um sjálft sig,“ segir Grétar Sigfinnur í samtali við Vísi.

Hann segist hafa talað við alla persónulega sem voru að fara með vélinni á vegum hans en einhverjir höfðu líka bókað farið í gegnum Transatlantic.

„Ég hef verið að bjóða lausnir í samstarfi við WOW air svo það náðist nú að útvega nokkuð mörgum flug út en auðvitað eru margir sem ætluðu að nýta sér þessa góðu hugmynd að fara út og þurfa ekki að gista. En eins og ég segi, þá er þetta bara mjög leiðinlegt og maður er alveg miður sín yfir þessu,“  segir Grétar.

Hann segist að sjálfsögðu munu endurgreiða öllum þeim sem ætluðu á hans vegum með vélinni.

„Já, ekki spurning, það fá allir miðann sinn endurgreiddan.“

Aðspurður hvernig fólkið sem keypt hafði sér far með vélinni hafi brugðist við þegar hann hringdi í þá í morgun segir hann að allir hafi brugðist afskaplega vel við miðað við hvað málið allt sé leiðinlegt.

Grétar Sigfinnur skipulagði einnig flug til Frakklands fyrir leikinn gegn Englandi í Nice á mánudag en ekkert af þeirri ferð heldur þar sem þeir sem bókuðu flug með vélinni borguðu ekki í tæka tíð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×