Fleiri fréttir

Ísland beiti sér fyrir auknu lýðræði og gagnsæi innan ESB

„Hvað varðar stofnanir ESB, þá mun Ísland í norrænum anda vinna með þeim aðildarríkjum sem vilja auka lýðræðisleg vinnubrögð og gagnsæi innan ESB. Við munum gefa mannréttindum og velferð allra sérstakan gaum, ekki síst þegar kemur að minnihlutahópum,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, í ræðu á 61. þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í dag.

Lögreglustjóri vísar orðum Sveins Andra á bug

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Suðurnesjum, hafnar alfarið atvikalýsingu Sveins Andra Sveinssonar, lögmanns, á handtöku eiginkonu Íslendings sem er í haldi vegna mansalsmálsins, svonefnda. Lögreglustjórinn segir að konan hafi verið ósamvinnuþýð og neitað að gefa upplýsingar sem óskað var eftir. Því hafi verið ákveðið að handtaka hana og færa til yfirheyrslu.

Banaslys á Fljótsdalshéraði

Karlmaður á sextugsaldri lést í umferðarslysi sem varð á Fljótdalshéraði á afleggjaranum að bænum Hlíðarhús við veg 917 í morgun eða í nótt. Ökumaður dráttarvélar ók útaf veginum og valt hún í Fögruhlíðará. Vélin var hálf í kafi þegar að var komið.

Fjármálaráðherra er bjartsýnn á að lausn náist á atvinnumarkaði

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segist eiga von á því að hægt verði að finna lausn á stöðunni sem upp er komin á atvinnumarkaði. Úrslitatilraun hefur staðið yfir í dag til að bjarga stöðugleikasáttmálanum, en sáttmálinn rennur út á miðnætti. Þreifingar hafa verið á milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda í dag. Stjórn Samtaka atvinnulífsins fundaði um málið í hádeginu og var þungt hljóð í mönnum að sögn Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra SA.

Innbrotafaraldur herjar á íbúa Suðurnesja

Innbrotafaraldur hefur herjað á íbúa á Suðurnesjum nú í mánuð en á annan tug innbrota hafa verið tilkynnt til lögreglunnar á Suðurnesjum. Að sögn Skúla Jónssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns, þá hófst faraldurinn í lok september og náði hámarki fyrir stuttu. Hann segir faraldurinn þó í rénum nú.

Vantar sjálfboðaliða til þess að safna fyrir Rebekku Maríu

Pétur Sigurgunnarsson, sem safnar fé fyrir Rebekku Maríu Jóhannesdóttur í Hafnarfirði en hann vantar sjálfboðaliða til þess að aðstoða sig við að selja styrktarmerki í hennar nafni víðsvegar um landið. Eins og flestir vita þá berst Rebekka fyrir því að fá að ættleiða tvo bræður sína 8 og 2 ára eftir að móðir þeirra lést úr heilaæxli í ágúst síðastliðnum. Faðir Rebekku lést í bílslysi í ágúst 2007. Sjálf á Rebekka María von á barni í byrjun nóvember.

Skjalasafn Ólafs Thors afhent Reykjavíkurborg

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri mun á morgun taka formlega við einkaskjalasafni Ólafs Thors, fyrrverandi forsætisráðherra, sem varðveitt verður í Borgarskjalasafni Reykjavíkur. Af sama tilefni mun borgarstjóri opna vefsíðu um Ólaf Thors. Ólöf og Guðrún Pétursdætur gefa safnið í minningu foreldra sinna Mörtu Thors og Péturs Benediktssonar, eftir því sem fram kemur í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Eldur í blaðagámi

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað að verslunarkjarnanum í Suðuveri um tíuleytið í morgun vegna elds í blaðagámi. Að sögn slökkviliðsmanns sem fréttastofa talaði við skemmdist gámurinn það mikið að nauðsynlegt þótti að fjarlægja hann af staðnum.

Ók undir áhrifum fíkniefna og fékk piparúða í augun

Karlmaður á þrítugsaldri var stöðvaður af lögreglunni í Hafnarfiri aðfaranótt sunndags. Hann brást hinn versti við afskiptum lögreglunnar og lét ófriðlega að hennar sögn. Fór svo að hann var yfirbugaður með piparúða.

Í akstursbann á öðrum degi

Ungur piltur var stöðvaður á 128 kílómetra hraða í Ártúnsbrekkunnium helgina en hann var búinn að vera með ökuréttindi í tvo daga.

Húnabjörgin sótti aflvana bát

Húnabjörgin frá Skagaströnd, eitt af björgunarskipum Slysavarnafélagsins Landsbjargar, var kallað út á níunda tímanum í morgun vegna aflvana báts.

Hluti miðborgarinnar rafmagnslaus

Fyrir stundu varð rafmagnsbilun og er hluti miðbæjar Reykjavíkur rafmagnslaus samkvæmt tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur.

Dóttir Gunnars Birgissonar í meiðyrðamál við bæjarfulltrúa

Frjáls Miðlun ehf., sem er í eigu Guðjóns Gísla Guðmundssonar og Brynhildar Gunnarsdóttur, dóttur Gunnars Birgissonar, fyrrum bæjarstjóra Kópavogs, hefur stefnt þremur bæjarfulltrúum í Kópavogi fyrir meiðyrði. Alls krefjast hjónin auk Frjálsar miðlunar 11,4 milljóna króna vegna ummælanna. Bæjarfulltrúarnir eru Ólafur Þór Gunnarsson VG, Hafsteinn Karlsson Samfylkingunni og svo Guðríður Arnardóttur sem er einnig í Samfylkingunni.

Úrslitatilraun gerð í dag

Úrslitatilraun verður gerð í dag til að bjarga stöðugleikasáttmálanum. Þreifingar hafa verið á milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda í morgun en framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins fundar í hádeginu vegna málsins.

Vilja að lögreglustjórinn biðjist afsökunar

Farið verður fram á að lögreglustjórinn á Suðurnesjum biðjist opinberlega afsökunar á handtöku eiginkonu Íslendings sem er í haldi vegna mansalsmálsins, svonefnda. Talið er að handtakan hafi verið algerlega ástæðulaus, en konan var í haldi yfir nótt.

Mótmælandi í mál vegna ólögmætrar handtöku

Mótmælandinn Haukur Hilmarsson er búinn að stefna fjármálaráðuneytinu vegna ólögmætrar handtöku en fyrirtaka verður í málinu um klukkan þrjú í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur. Það er mannréttindalögfræðingurinn Ragnar Aðalsteinsson sem sækir málið fyrir Hauk. Hann krefst skaðabóta vegna handtökunnar sem átti sér stað í nóvember á síðasta ári.

Svínin voru með svínaflensu

Tilraunastöð HÍ að Keldum hefur nú staðfest að sýking í svínum á svínabúinu á Minni-Vatnsleysu er af völdum inflúensuveirunnar A(H1N1) samkvæmt heimasíðu Matvælastofnunnar.

Sýknaður af ölvunarakstri - dæmdur fyrir kókaínakstur

Karlmaður á fimmtugsaldri var sýknaður af ölvunarakstri í Héraðsdómi Suðurlands í morgun en hann var dæmdur fyrir að aka undir áhrifum kókaíns í öðru tilviki. Fyrra tilvikið átti sér stað í júlí árið 2008. Þá ók maðurinn norður Vaðnesveg í Grímsnes- og Grafningshreppi. Maðurinn ók forlátri Mercedez Benz CL bifreið út af veginum inn í runna þar sem hann var vart sjáanlegur frá veginum.

Minnsta kynjabil heims á Íslandi

Ísland er í fyrsta sæti í vísitölu Alþjóðaefnahagsráðsins um jafnræði kynjanna í heiminum samkvæmt nýrri skýrslu ráðsins. Noregur, sem áður vermdi fyrsta sætið, er hins vegar dottinn niður í það þriðja en Finnland er í öðru sæti og Svíþjóð í því fjórða.

Hvalfjarðargöng lokuð næstu nætur

Hvalfjarðargöng verða lokuð vegna viðhalds aðfaranótt miðvikudags 28.október, fimmtudags 29. október og föstudags 30. október frá miðnætti til klukkan sex að morgni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Innbrot í söluturn í Hafnarfirði

Brotist var inn í söluturn í Hafnarfirði um klukkan hálfþrjú í nótt. Ræningjarnir, sem voru þrír, forðuðu sér af vettvangi í bifreið en lögregla stöðvaði för þeirra skömmu síðar og handtók þá.

Niðurstöðu að vænta í dag

Alþýðusambandið (ASÍ) og Samtök atvinnulífsins (SA) ræddu í gær um að segja sig frá stöðugleikasáttmálanum en framlengja engu að síður kjarasamninga sín á milli. Þetta staðfestir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, en segir það aðeins eitt fjölmargra atriða sem eru til skoðunar. Þessi lausn sé ekki líklegri en hver önnur.

Rannsóknin á viðkvæmu stigi

Lögregla vann alla helgina að rannsókn meints mansalsmáls á Suðurnesjum. Um það bil tuttugu lögreglumenn af Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu hafa það með höndum. Ekki eru veittar upplýsingar að svo stöddu en málið sagt á mjög viðkvæmu stigi. Á morgun rennur út gæsluvarðhald yfir sjö mönnum, sem setið hafa inni að undanförnu vegna rannsóknar málsins. Um tvo Íslendinga og fimm Litháa er að ræða. Rannsóknin snerist í fyrstu um meint mansal. Nú eru til rannsóknar fleiri brotaflokkar, þar á meðal peningaþvætti og ofbeldisbrot.

Mega byggja á umdeildri sjávarlóð

Bæjarstjórn Álftaness hafði ekki málefnalegar ástæður til að synja eigendum sjávarlóðarinnar á Miðskógum 8 um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.

Vill ekki láta útrýma villtu fé

Smölun á villtu fé sem hefst við í kringum fjallshrygginn Tálkna verður reynd í dag á vegum Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps. Landið er afar erfitt yfirferðar og hefur þurft að skjóta það fé sem ekki næst til. Deilt er um það hvort þetta er nauðsynlegt en samkvæmt dýraverndunarlögum er lausaganga sauðfjár ekki leyfileg yfir veturinn af mannúðarástæðum. Það fé sem tekst að smala verður fært til slátrunar.

Kosið verður aftur um stækkun í Straumsvík

Nægum fjölda undir­skrifta hefur verið safnað í Hafnar­firði til að kjósa verði aftur um deiliskipulagstillögu Alcan. Hún gerir ráð fyrir stækkun álversins í Straumsvík. Fjórðungur bæjarbúa á kjörskrá þarf að krefjast atkvæðagreiðslunnar samkvæmt reglum bæjarins og hefur athugun bæjarstarfsmanna á undirskriftalistanum, sem var fullkláraður í sumar, leitt í ljós að hann fullnægir öllum skilyrðum.

Bankafólk má skoða gögn um fjármál manna

Kveða þarf sérstaklega á um það í lögum ef viðskiptamenn fjármálafyrirtækja eiga að fá rétt til þess að vita hvaða starfsmenn fyrirtækjanna hafi skoðað upplýsingar um fjármál viðskiptamannanna. Þetta segir Persónuvernd í tilefni af fyrirspurn Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra. Í ráðuneyti hans er unnið að breytingum á lögum um fjármálafyrirtæki.

Sýklalyf virðast auka líkur á sýkingum

Landlæknisembættið hefur gefið út nýjar leiðbeiningar um meðferð við bráðri eyrnabólgu. Ástæðan er meðal annars ör fjölgun lyfjaónæmra baktería í heiminum en þar standa Íslendingar mjög illa að vígi. Sýklalyfjanotkun hér er allt að fjörutíu prósentum meiri en annar staðar á Norðurlöndunum.

Afþakkar þrjár milljónir á ári

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður og formaður Hreyfingarinnar, hefur afþakkað 260.000 króna álag ofan á þingfararkaup sitt. Þetta eru 3.120.000 krónur á ári.

Ríkið borgar auglýsingar á lambakjöti

„Við eigum í harðri samkeppni við aðrar kjöttegundir og höfum því miður ekki sömu möguleika og sauðfjárbændur á að kynna okkar kjöt því ríkið stendur oft undir kostnaði á auglýsingum og kynningu á lambakjöti.“

Ráðgjafahópur skoðar tillögur

Iðnaðarráðherra hefur falið ráðgjafahópi að fjalla um leiðir til að bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum og meta til hvaða aðgerða grípa þurfi til að bæta samkeppnisstöðu svæðisins á sviði atvinnuuppbyggingar í orkufrekum iðnaði.

Líffæraígræðslur til Gautaborgar

Heilbrigðisyfirvöld hafa undirritað samning um ígræðslu líffæra við Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsið í Gautaborg. Þetta þýðir að líffæraígræðslur Íslendinga flytjast frá Kaupmannahöfn til Gautaborgar um áramótin.

Styrkja verður sjóvarnir í Vík

„Nú er svo komið að mannvirki eru í beinni hættu á komandi vetri og því algjörlega nauðsynlegt að hefja framkvæmdir strax,“ segir í ályktun ársþings Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, sem krefst þess að sjóvörn við Vík verði sett í forgang.

Orkuskattur leggist ekki á nýfjárfestingu

Fyrirhugaðir orku-, umhverfis- og auðlindaskattar, sem samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eiga að skila ríkissjóði sextán milljörðum króna í tekjur á næsta ári, veikja samkeppnisstöðu Íslands og munu vega þungt í ákvörðunum útlendinga um fjárfestingar á Íslandi.

Með amfetamín í DVD-spilara

Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir að hafa falið rúm fjörutíu grömm af amfetamíni í DVD-spilara, sem fangaverðir fundu við leit í fangaklefa á Litla-Hrauni.

Uppsagnir og lokanir deilda

„Þegar litið er til þess að spítalanum er gert að lækka rekstrarkostnað um sex prósent milli ára og að rekstrarhalli síðasta árs var þrjú prósent er ljóst að segja verður upp starfsfólki og loka deildum með tilheyrandi áhrifum á þá bráða- og grunnþjónustu sem spítalinn veitir sjúklingum á landsvísu.“

Hernaðarandstæðingar skora á ríkisstjórnina

Aðalfundur Samtaka hernaðarandstæðinga á Norðurlandi skorar á íslensk stjórnvöld að beita sér fyrir breyttum áherslum í endurreisn alþjóðahagkerfisins. Í ályktun sem samþykkt var á fundinum segir að áherslur undanfarinna ára hafa leitt af sér aukna misskiptingu og óréttlæti, bæði innan þjóðfélaga og á milli heimshluta.

Verkefni sveitarfélaganna eru þjóðhagslega hagkvæm

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG, segir að öll stærstu verkefni sveitarfélaganna eru þjóðhagslega hagkvæm. „Menntun, forvarnir, velferðar- og heilbrigðisþjónusta skilar sveitarfélögunum hraustari, hamingjusamari, afkastameiri og betur menntuðum íbúum, sem bæði leiðir af sér auknar skatttekjur og lægri útgjöld þegar til lengri tíma er litið,“ segir Sóley í pistli á heimasíðu sinni.

Jóhanna lýsti yfir vonbrigðum sínum

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, lýsti yfir vonbrigðum sínum á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna í dag og gagnrýndi að lán Norðurlandanna til Íslands hefði verið tengd áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins.

Telur verkalýðshreyfinguna hafa gert mistök

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, telur forystu verkalýðshreyfingarinnar hafa gert mikil mistök þegar ákveðið var að fresta launahækkunum í mars. Þá er hann afar ósáttur með aðkomu verkalýðshreyfingarinnar að gerð stöðugleikasáttmálans sem skrifað var undir í júní. „Hvað hefur komið út úr þessum stöðugleikasáttmála annað heldur en að launafólk hefur verið þvingað til að afsala sér sínum launahækkunum,“ sagði Vilhjálmur í Kastljósi í kvöld.

Sjá næstu 50 fréttir