Innlent

Sýknaður af ölvunarakstri - dæmdur fyrir kókaínakstur

Það var svona bifreið sem endaði utan vegar.
Það var svona bifreið sem endaði utan vegar.

Karlmaður á fimmtugsaldri var sýknaður af ölvunarakstri í Héraðsdómi Suðurlands í morgun en hann var dæmdur fyrir að aka undir áhrifum kókaíns í öðru tilviki. Fyrra tilvikið átti sér stað í júlí árið 2008. Þá ók maðurinn norður Vaðnesveg í Grímsnes- og Grafningshreppi. Maðurinn ók forlátri Mercedez Benz CL bifreið út af veginum inn í runna þar sem hann var vart sjáanlegur frá veginum. Maðurinn var búinn að aka bílnum einn og hálfan kílómeter áður en hann ók út af.

Maðurinn gekk frá bifreiðinni og áleiðis að sumarbústað þar sem hann dvaldi. Lögreglan kom á vettvang og fann bílinn, stuttu síðar fundu þeir manninn verulega drukkinn. Hann var með Vodkaflösku á sér og hafði að auki drukkið bjór á leiðinni. Sjálfur vildi hann meina að hann hefði drukkið áfengið eftir að hafa ekið út af, ekki áður.

Ekki var unnt að sýna fram á að maðurinn hefði drukkið áður en hann ók bílnum, hann var því sýknaður. Maðurinn játaði hinsvegar greiðlega að hafa ekið undir áhrifum kókaíns í maí síðastliðnum. Þá var hann á sama bíl. Manninum er gert að greiða 85 þúsund krónur í sekt og er sviptur ökuleyfi í einn og hálfan mánuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×