Innlent

Uppsagnir og lokanir deilda

Hjúkrunarráð spítalans varar stjórnvöld við þeim afleiðingum sem stórfelldur niðurskurður geti haft í för með sér.
Hjúkrunarráð spítalans varar stjórnvöld við þeim afleiðingum sem stórfelldur niðurskurður geti haft í för með sér.

„Þegar litið er til þess að spítalanum er gert að lækka rekstrarkostnað um sex prósent milli ára og að rekstrarhalli síðasta árs var þrjú prósent er ljóst að segja verður upp starfsfólki og loka deildum með tilheyrandi áhrifum á þá bráða- og grunnþjónustu sem spítalinn veitir sjúklingum á landsvísu.“

Svo segir í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi hjúkrunarráðs Landspítala fyrir helgi. Hjúkrunarráðið kveðst sjá sig knúið til að vara við. Bent er sérstaklega á að verði hjúkrunarfræðingum fækkað geti það ógnað öryggi sjúklinga. Rannsóknir hafi sýnt að sérþekking hjúkrunarfræðinga stuðli ekki aðeins að betri þjónustu heldur geti fyrirbyggt innlagnir, stytt legutíma og komið í veg fyrir fylgikvilla. Sérþekkingin sé þannig þjóðhagslega hagkvæm.

„Íslenska heilbrigðiskerfið stenst fyllilega samanburð við heilbrigðiskerfi annarra landa,“ segir enn fremur í ályktuninni. „Mikilvægt er að tímabundnir erfiðleikar í íslensku efnahagslífi verði ekki til þess að stoðunum sé kippt undan því til lengri tíma. Hjúkrunarráð skorar á stjórnvöld að standa vörð um íslenska heilbrigðiskerfið.“- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×