Fleiri fréttir

Ráðist á Íslending í Malaví

Íslenskur starfsmaður Þróunarstofnunar Íslands var rændur í Malaví í bænum Monkey Bay við Malavívatn. Frá þessu var greint í seinni fréttum Ríkisútvarpsins í kvöld. Allir starfsmenn stofnunarinnar hafa verið fluttir frá svæðinu og skrifstofu stofnunarinnar hefur verið lokað uns öryggi starfsmanna hefur verið tryggt.

Eldur í fjölbýlishúsi í Njarðvík

Betur fór en á horfðist í Njarðvík í kvöld þegar eldur kom upp í stigagangi þriggja hæða fjölbýlishúss. Kveikt var í blaðastafla og töluverður reykur myndaðist í húsinu. Nokkuð víst þykir að um íkveikju hafi verið að ræða.

Reykurinn reyndist vera hitavatnsgufa

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var nú fyrir stundu kallað að bátaskýli í Hafnarfirði. Tilkynnt hafði verið um að reykur bærist frá skýlinu en þegar slökkviliðsmenn komu á staðinn kom í ljós að um hitavatnsleka var að ræða.

Óljóst orðalag í yfirlýsingu um Írak

Ísland verður ekki tekið af lista hinna staðföstu þó það hafi verið skýr vilji verðandi utanríkisráðherra fyrir kosningar. Ný ríkisstjórn harmar stríðsreksturinn í Írak en forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar HÍ yfirlýsinguna óljósa.

Jafnræði milli flokkanna í ríkisstjórn

Þingvallastjórnin er helmingaskiptastjórn þegar tekið er tillit til hvoru tveggja, skiptingu ráðuneyta og stjórnarsáttmálans, segir Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðingur.

Óljós sáttmáli segir stjórnarandstaðan

Fátt stendur eftir af kosningaloforðum Samfylkingarinnar í nýjum stjórnarsáttmála, segir Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna. Formaður Framsóknarflokksins telur Samfylkingu hafa samið af sér. Leiðtogar tilvonandi stjórnarandstöðu segja sáttmálann óljósan.

Tónlist.is hefur staðið við allar skuldbindingar gagnvart Senu

Útgáfufyrirtækið Sena hefur sent frá sér tilkynningu vegna frétta síðustu daga þess efnis að tónlistarveitan Tónlist.is hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart flytjendum, útgefendum og höfundum. Eiður Arnarsson, forstöðumaður tónlistardeildar Senu segir í tilkynningunni að Tónlist.is hafi að fullu staðið við allar skuldbindingar gagnvart Senu, og að það hafi fyrirtækið gert frá upphafi.

Fjöldi fíkniefnabrota fer hratt vaxandi

Eignarspjöllum og ölvunarakstursbrotum fjölgaði í síðastliðnum aprílmánuði samanborið við sama mánuð í fyrra. Þetta kemur fram í afbrotatölfræði Ríkislögreglustjóra fyrir aprílmánuð. Fjöldi fíkniefnabrota hefur farið vaxandi undanfarin tvö ár en 185 brot voru framin í apríl.

Sportbarir að fyllast fyrir leik Liverpool og AC Milan

Mikil stemning hefur myndast á ölstofum á höfuðborgarsvæðinu fyrir úrslitaleikinn í Meistaradeild Evrópu milli Liverpool og AC Milan. Fyrstu gestir á sportbarnum Players í Kópavogi voru mættir áður en staðurinn opnaði í morgun. Þar bíða nú um 200 manns eftir að leikurinn hefjist.

Bjóða peningaverðlaun fyrir upplýsingar um innbrot

Verktakafyrirtækið Húsbygg hefur heitið þeim sem getur gefið upplýsingar um stórfelld skemmdarverk sem unnin voru í nýbyggingu fyrirtækisins á Akranesi í síðustu viku 100 þúsund krónum í verðlaun. Talið er að tjón af völdum skemmdarvarganna nemi allt að fjórum milljónum króna.

Ríkisstjórnarskipti á Bessastöðum á morgun

Ákveðið hefur verið að ríkisráðsfundir fari fram á Bessastöðum á morgun klukkan hálfellefu og tvö. Á fyrri fundinum kemur gamla ríkisstjórnin saman, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni og þá láta ráðherrar Framsóknarflokks og Sturla Böðvarsson samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins af embætti. Alþingi kemur saman í næstu viku.

Fagna breytingum í heilbrigðis- og landbúnaðarmálum

Samband ungra sjálfstæðismanna lýsir yfir ánægju sinni með stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, þó sérstkalega það sem snýr að heilbrigðismálum og landbúnaði.

Áform Landsvirkjunar um Norðlingaölduvirkjun úr sögunni

Umhverfisstefna ríkisstjórnarinnar þýðir að áform Landsvirkjunar um Norðlingaölduvirkjun er úr sögunni að mati Árna Finnssonar, formanns Náttúrverndarsamtaka Íslands. Hann segir stefnu hinnar nýju ríkisstjórnar í umhverfismálum skref í rétta átt en þörf sé á frekari skilgreiningu varðandi losun gróðurhúsaloftegunda.

Hlakkar til að takast á við breytingar með stjórnvöldum

Haraldi Benediktssyni, formanni Bændasamtaka Íslands, líst vel á þau atriði sem snúa að landbúnaði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins. Hann segist hlakka til að takast á við breytingar í samvinnu við stjórnvöld.

Verið að festa í sessi núverandi stöðu í sjávarútvegsmálum

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, segir að með nýrri stefnuyfirlýsingu Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar sé verið að festa núverandi stöðu í sjávarútvegs- og byggðamálum í sessi. Þá segir hann yfirlýsinguna vera helling af fögrum orðum á blaði en hann viti ekki hvað standi mikið á bak við þau.

Hive braut gegn fjarskiptalögum

Póst- og fjarskiptastofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að símafyrirtækið Hive hafi brotið gegn fjarskiptalögum þegar það hringdi í bannmerkt símanúmer í tengslum við markaðsstarf sitt.

Vilja fá svar áður en ráðist verður í umhverfismat

Forsvarsmenn Íslensks hátækniiðnaðar þrýsta á um að sveitarfélög á Vestfjörðum svari á næstu mánuðum hvort vilji sé fyrir því að reisa olíuhreinsistöð í landshlutanum áður en fyrirtækið leggur út í umhverfismat.

Samfylkingin gaf mikið eftir í stjórnarviðræðunum

Samfylkingin hefur gefið mikið eftir í stjórnarviðræðum við Sjálfstæðisflokkinn að mati Guðna Ágústssonar, nýs formanns Framsóknarflokksins. Hann segir ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar vera hægri stjórn og óttast einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og að Íbúðalánasjóður verði lagður niður. Þetta kom fram í máli Guðna í hádegisviðtali á Stöð 2. Hann spáir hörðum átökum innan ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu.

Glitnir telur nýja stjórn umbóta- og velferðarstjórn

Greiningardeild Glitnis segir um nýja ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins að heilt á litið virðist á ferðinni áframhaldandi frjálslynd umbóta- og velferðarstjórn sem leggi áherslu á góð rekstrarskilyrði fyrirtækja ásamt jöfnuði og bættum hag heimilanna.

Guðlaugur Þór inn - Sturla út

Ein breyting varð á ráðherrahópi sjálfstæðismanna. Guðlaugur Þór Þórðarson kemur nýr inn og verður heilbrigðisráðherra en Sturla Böðvarsson lætur af embætti samgönguráðherra og verður forseti Alþingis. Sturla kveðst fremur hafa kosið að vera áfram ráðherra.

Þingkonur Sjálfstæðisflokks segjast sáttar

Þingkonur Sjálfstæðisflokksins segjast sáttar við ráðherravalið þótt þær hefðu kosið að fleiri konur færu í ríkisstjórn af hálfu flokksins. Þorgerður Katrín er eina konan í sex manna ráðherrahópi flokksins.

Fagnar því að ríkisstjórn er mynduð á skömmum tíma

Fyrr í morgun gékk Geir Haarde forsætisráðherra á fund Ólafs Ragnars Grímssonar forseta og gerði honum grein fyrir lyktum stjórnarmyndunarviðræðna. Forsetinn fagnaði því að stjórn hefði verið mynduð á skömmum tíma og að ekki hefði þurft að koma til atbeina forsetaembættisins við myndun stjórnar.

Láta ekki liðinn tíma hafa áhrif á komandi samstarf

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir stefnuskrá ríkistjórnarinnar endurspegla þau atriði sem flokkurinn lagði áherslu á fyrir kosningar. Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir flokkana sammála um að láta ekki liðinn tíma hafa áhrif á komandi stjórnarsamstarf. Þetta kom fram í máli formannanna á blaðamannafundi á Þingvöllum fyrir skemmstu.

Þingvallastjórn vill endurskoða landbúnaðarkerfi og lífeyriskjör þingmanna

Áhersla verður lögð á að tryggja stöðugleika í íslenska efnahagslífinu og farið verður í endurskoðun á landbúnaðarkerfinu og eftirlaunum þingmanna og ráðherra ef ásamt því að lengja fæðingarorlof í áföngum. Þetta kom fram á fréttamannafundi á Þingvöllum í morgun þar sem formenn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins fóru yfir stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar.

Björn sáttur við niðurstöðuna

Björn Bjarnason, sem verður áfram dóms- og kirkjumálaráðherra í nýrri ríkisstjórn, segir að honum lítist vel á þá niðurstöðu sem varð í vali á ráðherrum Sjálfstæðisflokksins og samstarfið við Samfylkinguna. Góð samstaða hafi verið um málefnasamninginn hjá sjálfstæðismönnum og líka um verkaskiptinguna.

Kristján segist fara í draumaráðuneytið

Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi og nýr samgönguráðherra, sagðist eftir að tilkynnt var um hverjir yrðu ráðherrar flokksins að samgönguráðuneytið hefði verið draumaráðuneytið sitt. Hann hefði lengi haft áhuga á samgöngumálum og setið í samgöngunefnd Alþingis síðastliðin tvö kjörtímabil.

Nýr iðnaðarráðherra mun stíga varlega til jarðar

Mitt stærsta verkefni verður að skapa sátt á milli verndunarsjónarmiða og nýtingarsjónarmiða,“ segir Össur Skarphéðinsson, nýr iðnaðarráðherra. Hann segir stóriðjumálin hafa skipt þjóðinni í tvennt. „Við ætlum að byrja upp á nýtt.“

Svona er þetta bara

„Svona er þetta bara,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, eftir að ljóst var að hún er eina konan af hálfu Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn. Hún verður áfram menntamálaráðherra.

Viðskiptaráðuneytið spennandi

Björgvin G. Sigurðsson nýr viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar segir viðskiptaráðuneytið spennandi ráðuneyti og mörg stór verkefni framundan á þeim vettvangi. Hann lýsti ánægju sinni með stjórnarsáttmálann, sáttmálinn væri metnaðarfullur og hefði fengið glymjandi fínar móttökur hjá flokksmönnum.

Tími Jóhönnu kominn

Jóhanna Sigurðardóttir, verðandi ráðherra velferðarmála, segist hlakka til að setjast aftur í ráðherrastól en hún sat sem félagsmálaráðherra á árunum 1987-1994. Aðspurð segir hún ráðuneytið hafa breyst mikið síðan þá og bendir á að almannatryggingarnar færist nú til þess frá heilbrigðisráðuneytinu.

Mikilvæg ráðuneyti undir stjórn Samfylkingarinnar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir það hafa verið erfitt verk að velja fólk á ráðherralista flokksins. Hún segist ánægð með að flokkurinn skuli fara fyrir samgönguráðuneytinu, en Kristján L. Möller er nýr samgönguráðherra. Hún segir flokkinn einnig leggja mikla áherslu á ráðuneyti hins nýja atvinnulífs, iðnaðarráðuneytið og viðskiptaráðnuneytið.

Munum standa vörð um hagsmuni landbúnaðarins

Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir það spennandi tilhugsun að taka við báðum ráðuneytunum en hann hefur verið sjávarútvegsráðherra í nærri tvö ár.

Nýjar þingkonur hefðu viljað sjá fleiri konur á meðal ráðherra

Arnbjörg Sveinsdóttir segir að konur innan flokksins finni sinn tíma og að þær komi sterkar inn á öðrum sviðum í störfum flokksins. Nýjir þingmenn flokksins, þær Guðfinna Bjarnadóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir segjast báðar hafa viljað sjá fleiri konur í ráðherraliðinu.

Hefði kosið jafnari hlut kynjanna

Ásta Möller, þingkona Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, segist hafa kosið betri hlut kvenna í nýrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, en fimm af ráðherrum flokksins eru karlar.

Kostir einkareksturs nýttir í meiri mæli segir nýr heilbrigðisráðherra

Guðlaugur Þór Þórðarson verður heilbrigðisráðherra í nýrri ríkisstjórn. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu hefur verið skipt upp og í samtali við Stöð 2 sagði Guðlaugur að breytingin felist helst í því að almannatryggingarnar fara úr heilbrigðisráðuneytinu en að sjúkratryggingar verði áfram undir hatti heilbrigðisráðherra.

Sturla hefði viljað sitja áfram sem ráðherra

Sturla Böðvarsson sem hverfur úr samgönguráðuneytinu og sest í stól forseta Alþingis segist hafa viljað vera ráðherra áfram í nýrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar en þetta hafi verið niðurstaðan í flokknum.

Annasamur dagur hjá Geir og Ingibjörgu

Stjórnarsáttmálinn og ríkisstjórnaraðild verða borin undir fundi flokksráðs Sjálfstæðisflokks og flokksstjórnar Samfylkingarinnar í kvöld og ráðherralistar undir þingflokka. Búist er við að formenn flokkanna kynni hvaða ráðherrar sitja í ríkisstjórninni að loknum fundunum.

Strætóferðir á 30 mínútna fresti í sumar

Öllu leiðarkerfi Strætó bs. verður breytt yfir sumartímann þannig að allar ferðir verða á hálftíma fresti í stað tuttugu mínútna. Ástæðan er sparnaður, starfsmannekla og færri farþegar á sumrin segir nýráðinn framkvæmdastjóri Strætó.

Endurvinnsluátak í pappír

Aðeins fjörutíu prósent af dagblöðum, tímaritum og bæklingum sem borin eru í hús fara í endurvinnslu og næstum þriðjungur af heimilissorpinu er pappír. Hópur fyrirtækja hefur ákveðið að hefja átak til að hvetja almenning til endurvinnslu á pappír.

Aukafréttatími Stöðvar 2 á Vísi

Í kvöld verða ráðherralistar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar kynntir. Um leið og tíðindi berast úr herbúðum flokkana fer í loftið bein útsending á Stöð 2 og hér á Vísi. Smellið á takkann spila hér fyrir neðan til þess að fylgjast með útsendingunni.

Öflug, frjálslynd umbótastjórn

Væntanleg ríkisstjórn verður öflug og frjálslynd umbótastjórn að sögn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur formanns Samfylkingarinnar. Jafn margar konur og karlar munu skipa ráðherraembætti flokksins.

Framsóknarmenn þöglir um framtíð formannsins

Framsóknarmenn gefa ekkert uppi um framtíð Jóns Sigurðssonar formanns flokksins og sjálfur tjáir hann sig ekki við fjölmiðla. Siv Friðleifsdóttir var í dag kjörin þingflokksformaður flokksins og segjast þingmenn Framsóknar ætlað að veita frjálshyggjustjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar harða stjórnarandstöðu.

Sjá næstu 50 fréttir