Innlent

Áform Landsvirkjunar um Norðlingaölduvirkjun úr sögunni

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands. MYND/365

Umhverfisstefna ríkisstjórnarinnar þýðir að áform Landsvirkjunar um Norðlingaölduvirkjun er úr sögunni að mati Árna Finnssonar, formanns Náttúrverndarsamtaka Íslands. Hann segir stefnu hinnar nýju ríkisstjórnar í umhverfismálum skref í rétta átt en þörf sé á frekari skilgreiningu varðandi losun gróðurhúsaloftegunda.

„Það er mjög gott að skýrt sé tekið fram í stefnu ríkisstjórnarinnar að ekki verði snert við Langasjó," sagði Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, í samtali við Vísi. „Fari Langisjór inn í Vatnajökulsþjóðgarðinn og friðlandið í Þjórsárverum stækkað út yfir votlendið eins og stefnan gerir ráð fyrir þýðir það að áform Landsvirkjunar um Norðlingaölduvirkjun er úr sögunni."

Árni segir það eitt og sér mikið fagnaðarefni og telur einboðið að Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, muni leggja sem fyrst fram frumvarp til laga um að afturkalla virkjunarleyfi vegna Norðlingaölduvirkjunar. „Það verður að teljast sigur fyrir umhverfisvernd í landinu að ekki eigi að snerta við Langasjó og Þjórsárverum."

Árni segir margt í umhverfisstefnu hinnar nýju ríkisstjórnar jákvætt en segir þörf á nánari skilgreiningum þegar kemur að markmiðum varðandi losun gróðurhúsaloftegunda. Til dæmis vanti alveg tímaramma og hversu mikið nákvæmlega á að draga úr losun.„Það vantar inn ártal og magn varðandi gróðurhúsaloftegundir. Það er mikil áskorun fyrir nýjan umhverfisráðherra að setja þessar tölur inn sem fyrst."

Árni fagnar ennfremur að ljúka eigi rannsóknum á verndargildi náttúrusvæða en setur spurningarmerki við að hefja eigi skógrækt í stórum stíl. „Skógrækt er líka háð mati á umhverfisáhrifum. Skógrækt í stórum stíl veldur umhverfisáhrifum."

Þá telur Árni það gott að unnið verði að aukinni notkun vistvænna ökutækja hér á landi. Hann segir þó nauðsynlegt að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að auðvelda almenningi kaup á vistvænum bílum meðal annars með skattaívilnun af einhverju tagi. Á móti verði þeim refsað sem kaupa óvistvæna bíla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×