Innlent

Fjöldi fíkniefnabrota fer hratt vaxandi

MYND/365

Eignarspjöllum og ölvunarakstursbrotum fjölgaði í síðastliðnum aprílmánuði samanborið við sama mánuð í fyrra. Þetta kemur fram í afbrotatölfræði Ríkislögreglustjóra fyrir aprílmánuð. Fjöldi fíkniefnabrota hefur farið vaxandi undanfarin tvö ár en 185 brot voru framin í apríl.

Samkvæmt tölfræðinni voru hegningarlagabrot í síðasta mánuði 1.130 sem er heldur færra en í sama mánuði í fyrra. Þá fækkar einnig umferðarlagabrotum.

Alls voru framin 185 fíkniefnabrot í síðasta mánuði en þau voru 144 í apríl í fyrra. Um 41 prósent fíkniefnabrota áttu sér stað á nóttinni en 26 prósent þeirra frá klukkan sex síðdegis fram að miðnætti. Hlutfall hegningarlagabrota skiptist hins vegar jafnar yfir sólarhringinn.

Þá voru skráð 2.127 hraðakstursbrot og fækkar þeim umtalsvert milli ára. Í fyrra voru þau 2.838 talsins. Á sama tíma fjölgar þjófnuðum úr 199 í 263. Flest þjófnaðar- og innbrot voru framin á mánudögum.

Ennfremur kemur fram í tölfræði Ríkislögreglustjóra að flestar líkamsmeiðingar áttu sér stað á laugardögum og sunnudögum og þá fjölgaði umferðarlagabrotum á Eskifirði, Húsavík, Sauðárkróki og Seyðisfirði um meira en 100 prósent milli ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×