Innlent

Strikað yfir fortíðina varðandi deilur um Írak

Þau Geir H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, verðandi utanríkisráðherra mættu í Ísland í dag fyrr í kvöld þar sem farið var um víðan völl. Ingibjörg sagði meðal annars að ákveðið hafi verið að strika yfir fortíðina þegar kæmi að Íraksstríðinu og Geir sagði að kynjakvótar gætu komið í veg fyrir að hæfustu ráðherrarnir væru skipaðir.

Ingibjörg sagði í viðtalinu að markmið flokks hennar hefði verið að koma á fót ríkisstjórn Samfylkingar, vinstri gænna og frjálslyndra. Þeir flokkar hefðu allir verið sammála um að taka Ísland af lista hinna vígfúsu þjóða. Í ljósi þess að Samfylkingin fór í stjórn með Sjálfstæðisflokknum hafi verið ákveðið að slá striki yfir fortíðina en hún benti á yfirlýsinguna í sáttmálanum þar sem stríðsreksturinn í Írak er harmaður sem hún sagði mjög mikilvæga.

Geir var spurður út í rýran hlut kvenna í ráðuneytum Sjálfstæðisflokksins og svaraði hann því til að margar hæfar konur væru í þingflokki sjálfstæðismanna. „Það koma fleiri sjónarmið til skjalana þegar valið er á milli," sagði Geir og nefndi í því sambandi niðurröðun á lista að loknum prófkjörum. Hann sagði að sinn flokkur væri ekki á því að taka upp kynjakvóta við skipanir ráðherra eins og Samfylkingin hefur gert. „Þau erumeð ákveðna reglu í því efni, en þá er ekki endilega þar með sagt að verið sé að velja hæfasta fólkið," sagði forsætisráðherra og bætti við: „Ég veit og skil að það eru ekki allir sáttir. Það eru sem betur fer í okkar flokki mörg ráðherraefni og við sjáum til hvernig þetta þróast."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×