Innlent

Láta ekki liðinn tíma hafa áhrif á komandi samstarf

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir stefnuskrá ríkistjórnarinnar endurspegla þau atriði sem flokkurinn lagði áherslu á fyrir kosningar. Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir flokkana sammála um að láta ekki liðinn tíma hafa áhrif á komandi stjórnarsamstarf. Þetta kom fram í máli formannanna á blaðamannafundi á Þingvöllum fyrir skemmstu.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagðist á blaðamannafundinum vera mjög sátt við stefnuskrána. Hún sagði flokkinn hafa lagt áherslu á 12 atriði fyrir kosningar og þau endurspeglist öll í stefnuskránni. Í því samhengi benti hún meðal annars á það markmið ríkisstjórnarinnar að bæta stöðu yngsta og elsta aldurshópsins í samfélaginu. Þá benti hún ennfremur á að tekið verði á kynbundnum launamun í samfélaginu og að sérstök áhersla verði lögð á umhverfismál.

Samkvæmt stefnuskránni mun ríkisstjórnin gefa út yfirlýsingu þar sem stríðsrekstur í Írak verði harmaður. Samfylkingin hafði fyrir kosningar krafist þess að Ísland verði tekið af lista yfir hinar staðföstu þjóðir. Ingibjörg sagðist sátt við þessa niðurstöðu og benti á að ríkisstjórnin muni horfa til framtíðar en ekki fortíðar. Geir H. Haarde sagði flokkana sammála um að láta liðinn tíma ekki hafa áhrif á stjórnarsamstarf flokkanna.

Þá verður komið á fót sérstakri nefnd til að opna umræðuna um Evrópusambandið hér á landi. Ekki var kveðið sérstaklega á um að stefnt skuli að inngöngu í bandalagið en flokkarnir tveir hafa ekki verið sammála í afstöðu til þess hingað til. Ingibjörg sagði ljóst að Samfylkingin vildi ganga lengra í þessum efnum en Sjálfstæðisflokkurinn. Hún sagði hins vegar mikilvægt að sátt ríkti um öll þau skref sem tekin væru í þessum efnum. Geir sagði að með stofnun nefndarinnar hafi flokkarnir sýnt vilja til að nálgast hvorn annan. Hins vegar sé það skoðun Sjálfstæðisflokksins að afstaða Íslendinga til sambandsins eigi að byggjast á hagsmunum og þeir mæli ekki með inngöngu í sambandið eins og sakir standa.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×