Innlent

Ráðist á Íslending í Malaví

Íslenskur starfsmaður Þróunarstofnunar Íslands var rændur í Malaví í bænum Monkey Bay við Malavívatn. Frá þessu var greint í seinni fréttum Ríkisútvarpsins í kvöld. Allir starfsmenn stofnunarinnar hafa verið fluttir frá svæðinu og skrifstofu stofnunarinnar hefur verið lokað uns öryggi starfsmanna hefur verið tryggt.

Fjórir vopnaðir menn réðust inn á heimili mannsins og rændu öllu verðmætu. Þeir skildu hann eftir keflaðan og læstu lífverðir hans inni í útihúsi. Sighvatur Björgvinsson, yfirmaður stofnunarinnar segir ráðist hafi verið að manninum þar sem hann lá sofandi. Hann var látinn tína til allt fémætt í húsinu og síðan var hann bundinn og keflaður.

Verðirnir náðu síðar að sleppa úr prísund sinni og komu þeir manninum til hjálpar. Sighvatur segir að maðurinn hafi ekki slasast í árásinni en að hún hafi verið honum mikið áfall og hefur honum verið veitt áfallahjálp. Samkvæmt fréttum RÚV búa fjórir til fimm íslendingar við Malavívatn að jafnaðir.

Sighvatur sagði einnig að áður hafi verið brotist inn til fólks á svæðinu, en að aldrei hafi verið ráðist beint á starfsmenn stofnunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×