Innlent

Bjóða peningaverðlaun fyrir upplýsingar um innbrot

MYND/Stöð 2

Verktakafyrirtækið Húsbygg hefur heitið þeim sem getur gefið upplýsingar um stórfelld skemmdarverk sem unnin voru í nýbyggingu fyrirtækisins á Akranesi í síðustu viku 100 þúsund krónum í verðlaun. Talið er að tjón af völdum skemmdarvarganna nemi allt að fjórum milljónum króna.

„Við viljum upplýsa málið sem fyrst," sagði Einar Árnason, yfirverkstjóri verktakafyrirtækisins Húsbygg, í samtali við Vísi.

Á fréttavef Skessuhorns er greint frá því að stórfellt eignatjón hafi verið unnið fyrir rúmri viku í tíu hæða íbúðablokk sem er í byggingu við Stilliholt á Akranesi. Meðal annars var miklu magni af málningu hellt niður í lyftuop og yfir dýr og viðkvæm rafmagnstæki. Húsbygg sér um framkvæmdir á svæðinu og hefur fyrirtækið nú lofað hverjum þeim sem getur gefið upplýsingar um verknaðinn 100 þúsund krónum í verðlaun.

Einar sagði í samtali við Vísi ljóst að tjónið nema að minnsta kosti fjórum milljónum króna. Hann segir viðbúið að fyrirtækið muni krefjast skaðabóta af þeim sem ber ábyrgð á skemmdunum. „Við munum væntanlega fara fram á að hinn seki bæti skaðann." Að sögn Einars hafa engar vísbendingar borist enn sem komið er.

Þeir sem geta gefið upplýsingar er bent á að hringja í Einar Árnason í síma 897-0770 eða lögregluna í síma 431-1977.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×