Innlent

Nýjar þingkonur hefðu viljað sjá fleiri konur á meðal ráðherra

Arnbjörg Sveinsdóttir segir að konur innan flokksins finni sinn tíma og að þær komi sterkar inn á öðrum sviðum í störfum flokksins. Nýjir þingmenn flokksins, þær Guðfinna Bjarnadóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir segjast báðar hafa viljað sjá fleiri konur í ráðherraliðinu, en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er eina konan í hópnum.

„Þetta var tillaga formannsins og við styðjum þá tillögu," sagði Arnbjörg, sem áfram verður þingflokksformaður. „Aðstæðurnar eru bara svona núna, við tökum því og þetta var niðurstaðan. Við finnum okkar tíma og komum sterkar inn á öðrum sviðum," sagði Arnbjörg.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir segist hafa viljað sjá fleiri konur á ráðherralistanum og Guðfinna Bjarnadóttir tók í sama streng í samtali við Stöð 2. „En við styðjum okkar fólk," sagði Guðfinna. „Ég vil gjarnan sjá konur leiða listana í næstu kosningum," bætti hún við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×