Innlent

Sportbarir að fyllast fyrir leik Liverpool og AC Milan

Höskuldur Kári Schram skrifar
Mikill áhugi á leik Liverpool og AC Milan. Frá Players í Kópavogi.
Mikill áhugi á leik Liverpool og AC Milan. Frá Players í Kópavogi. MYND/HS

Mikil stemning hefur myndast á ölstofum á höfuðborgarsvæðinu fyrir úrslitaleikinn í Meistaradeild Evrópu milli Liverpool og AC Milan. Fyrstu gestir á sportbarnum Players í Kópavogi voru mættir áður en staðurinn opnaði í morgun. Þar bíða nú um 200 manns eftir að leikurinn hefjist.

„Við byrjuðum í gær að undirbúa leikinn og settum upp aukaborð og stóla," sagði Hallur Dan Johansen, einn eigenda Players, í samtali við Vísi. „Við reiknum með góðri mætingu í kvöld eins og að venju þegar um stórleik er að ræða."

Að sögn Halls voru fyrstu gestir mættir fyrir utan Players þegar staðurinn opnaði klukkan 11 í morgun til að tryggja sér góð sæti. Nú eru um 200 manns á staðnum bíðandi eftir því að leikurinn hefjist.

Fyrstu gestir á Glaumbar í miðbæ Reykjavíkur voru mættir laust fyrir klukkan tvö í dag að sögn Lísu Woodland, starfsmanns þar. „Fólk hefur verið að tínast inn í allan dag og taka frá borð," sagði Lísa í samtali við Vísi.

Lísa reiknar með góðri mætingu í kvöld en staðurinn tekur vel á annað hundrað manns.

Leikur Liverpool og AC Milan verður sýndur beint á Sýn og hefst útsending klukkan 18 en leikurinn sjálfur klukkan 18.45




Fleiri fréttir

Sjá meira


×