Innlent

Verið að festa í sessi núverandi stöðu í sjávarútvegsmálum

MYND/Sigurður Jökull

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, segir að með nýrri stefnuyfirlýsingu Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar sé verið að festa núverandi stöðu í sjávarútvegs- og byggðamálum í sessi. Þá segir hann yfirlýsinguna vera helling af fögrum orðum á blaði en hann viti ekki hvað standi mikið á bak við þau.

Guðjón segir að sem landsbyggðarþingmaður hafi hann tekið eftir því að hvergi sé tekið á sjávarútvegskerfinu sem sé að rústa byggðir landsins. Talað sé um að tryggja stöðugleika í sjávarútvegi í stefnuyfirlýsingunni en það sé stöðugleiki fyrir LÍÚ en ekki byggðir landsins. Sjávarútvegsmálin séu nátengd byggðarmálum og miðað við yfirlýsinguna fái ríkisstjórnin falleinkunn í þeim málum hjá honum.

Ríkisstjórnin segist í yfirlýsingunni munu leggja áherslu á að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja og einfalda almannatryggingakerfið. Skoðað verði sérstaklega samspil skatta, bóta, lífeyrisgreiðslna og tekna til að tryggja meiri sanngirni og hvetja til tekjuöflunar. Guðjón Arnar segir að frjálslyndir hafi lengi haft skoðanir á þessum málum og ef menn vilji draga úr tekjutengingum og skerðingum í kerfinu og ef orð ríkisstjórnarinnar þýði það séu frjálslyndir tilbúnir til samstarfs.

Um stefnuyfirlýsinguna í heild segir Guðjón Arnar að hún sé hellingur af orðum á blaði en hann geti ekki sagt hvað standi mikið á bak við þau. Ef menn séu þó tilbúnir til að endurskoða skattkerfið þannig að láglaunafólk komist að í samfélaginu þá liggi þingmenn frjálslyndra ekki á liði sínu.

Um ríkisstjórnina segir Guðjón Arnar að þetta sé allt hið ágætasta fólk en að það hafi komið honum á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki skipað konu í embætti heilbrigðisráðherra. Hann hefði fyrir fram búist við því. Þá segir hann aðspurður um brotthvarf Jóns Sigurðssonar úr stóli formanns Framsóknarflokksins að það hafi ekki komið honum á óvart í ljósi þess að Jón var ekki kjörinn á þing. Hann óski honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Þingflokkur frjálslyndra kemur saman í dag til fundar og í næstu viku mun miðstjórn flokksins funda. Guðjón Arnar segir að þar verði niðurstöður kosninganna og staða flokksins eftir þær rædd ásamt stöðu landsbyggðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×