Innlent

Hlakkar til að takast á við breytingar með stjórnvöldum

MYND/Teitur

Haraldi Benediktssyni, formanni Bændasamtaka Íslands, lýst vel á þau atriði sem snúa að landbúnaði í stefnuyfirlýsingu. ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins.

Þar er meðal annars kveðið á um að unnið verði að endurskoðun landbúnaðarkerfisins með það fyrir augum að auka frelsi, bæta stöðu bænda og lækka verð til neytenda.

Haraldur segir að það sé gamalt verkefni og nýtt að endurskoða landbúnaðarkerfið, kerfið nú sé ekki það sama og var fyrir tíu árum og það sé því í raun í stöðugri endurskoðun. Sagði hann bændaforystuna hlakka til að takast á við breytingar í samvinnu við yfirvöld en þau hefðu lofað góðu samstarfi og lýst því yfir að þau myndu bæta hag bænda.

Aðspurður hvort hann sakni einhvers í yfirlýsingunni segir Haraldur að hann vonist til að ríkisstjórnin hafi samráð við bændur við tilflutning stofnana og verkefna frá landbúnaðarráðuneytinu. Til stendur meðal annars að flytja Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla til menntamálaráðuneytis og Landgræðsluna og Skógræktina undir umhverfisráðuneytið. Haraldur segir bændur vilja koma að sínum sjónarmiðum þar, til að mynda að bændur hafi áfram faglega aðkomu að Landbúnaðarháskólanum.

Haraldur segir að bændur muni sakna Guðna Ágústssonar sem hverfur nú úr landbúnaðarráðuneytinu eftir átta ár í stóli landbúnaðarráðherra. „Ég held að enginn maður hafi talað betur máli landbúnaðarins en landbúnaðarráðherra undanfarin ár. Um leið óskum við nýjum ráðherra, Einari K. Guðfinnssyni, til hamingju og vonumst eftir góðu samstarfi við hann," segir Haraldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×