Innlent

Öflug, frjálslynd umbótastjórn

Væntanleg ríkisstjórn verður öflug og frjálslynd umbótastjórn að sögn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur formanns Samfylkingarinnar. Jafn margar konur og karlar munu skipa ráðherraembætti flokksins.

Þingmenn Samfylkingarinnar gengu hver á eftir öðrum á fund formanns flokksins á skrifstofu hennar á Alþingi í dag. Þar gerði hún þeim grein fyrir stefnuyfirlýsingu væntanlegrar ríkisstjórnar en sagði þeim ekki hverjir verða ráðherrar flokksins.

Eini þingmaður Samfylkingarinnar fyrir utan Ingibjörgu Sólrúnu sjálfa sem er öruggur um ráðherraembætti er Össur Skarphéðinsson fyrrverandi formaður flokksins. Ljóst er að margir eru kallaðir en fáir útvaldir og nú reynir á hvort friður verði um val formannsins eða hvort það skapi óánægju til framtíðar.

Ingibjörg Sólrún hefur aldrei áður stýrt stjórnarmyndun fyrir hönd flokksins. Hún sagðist því þurfa að spila þetta dálítið eftir eyranu en með viðtölum sínum við þingmenn vildi hún m.a. heyra hugmyndir þeirra um ráðherraefni.

Ingibjörg segir að jafnræði verði milli kynjanna í ráðherraliði flokksins. Það þýðir að fimm konur keppa um þau tvö ráðherrasæti sem falla öðrum konum en henni í hönd, ef verðandi stjórnarflokkar skipa sex ráðherrasæti hvor eins og fráfarandi stjórn gerði. Þingmenn sem gengu á fund Ingibjargar í dag voru varkárir í yfirlýsingum.

Formaður Samfylkingarinnar sagðiað ný stjórn hefði stóran meirihluta á Alþigi og stjórnin yrði öflug, frjálslynd umbótastjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×