Innlent

Ráðuneytum ekki fækkað þrátt fyrir yfirlýsingar fyrir kosningar

Ekki fækkar ráðuneytum í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, þrátt fyrir að báðir flokkar hafi talað fyrir því. Hins vegar verða ráðneyti sameinuð og málaflokkar færðir til.

Ráðuneyti iðnaðar og viðskipta verður skipt upp, ráðuneyti landbúnaðar og sjávarútvegs verða undir sama ráðherra og félagsmálaráðuneyti verður ráðuneyti velferðarmála. Við stjórnvölinn eru átta karlar og fjórar konur.

Ein breyting verður á ráðherrahóp sjálfstæðismanna. Guðlaugur Þór Þórðarson kemur nýr inn og verður heilbrigðisráðherra en Sturla Böðvarsson lætur af embætti samgönguráðherra og verður forseti Alþingis.

Einar K. Guðfinnsson verður áfram sjávarútvegsráðherra og bætir jafnframt við sig landbúnaðarráðuneytinu.

Þótt engar yfirlýsingar hafi verið gefnar um breytingar á ráðherraskipan á kjörtímabilinu er almennt búist við að Björn Bjarnason sitji ekki út kjörtímabilið. Vangaveltur eru uppi um að Jóhannes í Bónus hafi tryggt Birni ráðherrasæti áfram þrátt fyrir útstrikanir. Geir Haarde hafi ekki getað látið undan þrýstingi kaupmannsins við skipan í ríkisstjórn sem strax á fyrstu klukkkustundum fékk viðunefndið Baugsstjórnin.

Þorgerður Katrín er eina konan í sex manna ráðherrahópi flokksins. Þingkonur Sjálfstæðisflokksins segjast sáttar við ráðherravalið en hefðu þó kosið að fleiri konur færu í ríkisstjórn af hálfu flokksins.

Í ráðherraliði Samfylkingarinnar eru þrjár konur og þrír karlar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verður utanríkisráðherra. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra. Kristján L. Möller ráðherra samgöngumála. Björgvin G. Sigurðsson verður í forsvari fyrir viðskiptaráðuneyti. Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrir umhverfisráðuneyti og Jóhanna Sigurðardóttir verður ráðherra félagsmála og tekur við umfangsmiklu velferðarráðuneyti, en þangað flytjast málefni aldraðra og almannatryggingar.

Þau Jóhanna og Össur eru einu ráðherrar Samfylkingarinnar sem áður hafa gegnt ráðherradómi. Össur tekur við nýju iðnaðarráðuneyti þangað sem ferðaþjónustan færist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×