Fleiri fréttir

Baráttusamtökin hætt við að bjóða fram

Baráttusamtök aldraðra og öryrkja eru hætt við að bjóða fram í komandi alþingiskosningum. María Óskarsdóttir, efsti maður á lista framboðsins í Norðausturkjördæmi, staðfesti þetta fyrir nokkrum mínútum.

Haturglæpir gegn samkynhneigðum fara vaxandi

Hatursglæpir gegn samkynhneigðum einstaklingum fara vaxandi og þá sérstaklega gagnvart samkynhneigðum karlmönnum. Þetta kemur fram í máli formanns Samtakanna 78, í samtali við Vísi. Hann segist vita um mun fleiri tilfelli hatursglæpa á síðasta ári en árin þar á undan.

Refasetur á Súðavík

Refasetur bætist innan tíðar við fjölbreyta flóru setra, sem kennd við drauga, vesturfara, galdra og fleira. Súðvíkingar eru að endurbyggja rúmlega aldar gamalt refahús við Eyrarlandsbæinn, í grennd við byggðina og njóta til þess fjárveitinga frá Alþingi.

Mikið af þorski við Þorlákshöfn

Netabáturinn Hvanney frá Hornafirði er búinn að fá yfir 300 tonn af stórum þorski á aðeins sex dögum rétt utan við höfnina i Þorlákshöfn. Það þykir afburða góður afli. Til samanburðar jafngildir þessi afli fullfermi tveggja til þriggja meðal stórra ísfisktogara.

Áhyggjur af hlutdrægni spyrla RUV

Margrét Sverrisdóttir frambjóðandi Íslandshreyfingarinnar til Alþingis hefur áhyggjur af því sem hún kallar einsleitan hóp spyrla á Ríkissjónvarpinu. Hún segir þá flesta eiga sér fortíð í samtökum hægrimanna sem tengjast Sjálfstæðisflokknum.

Dregið úr reykingum um helming síðustu 12 ár

Hlutfall nemenda í 10. bekk sem reykja daglega hér á landi hefur lækkað um nær helming á 12 árum. Þá hefur dregið verulega úr drykkju þeirra á sama tímabili. Þetta eru niðurstöður úr nýrri ESPAD rannsókn sem kynntar voru í dag.

Viðskiptamöguleikar við Sameinuðu þjóðirnar

Viðskiptamöguleikar íslenskra fyrirtækja við Sameinuðu þjóðirnar er efni fræðslufundar á vegum Útflutningsráðs og viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins. Fundurinn verður haldinn í fyrramálið á Hótel sögu. Niels Ramm sérfræðingur í upplýsingaöflun á vegum Sameinuðu þjóðanna er einn fyrirlesara.

Dómur verður kveðinn upp í Baugsmálinu á morgun

Dómur verður kveðinn upp í Baugsmálinu klukkan tólf á morgun. Þá kemur í ljós hvort sakborningarnir þrír, þeir Jón Ásgeir Jóhannesson, Tryggvi Jónsson og Jón Gerald Sullenberger, verða sakfelldir fyrir einhvern þeirra nítján ákæruliða sem nú eru teknir fyrir.

Bjarni sakar Sigurjón um ósannindi

Bjarni Benediktsson, formaður allsherjarnefndar Alþingis, sakar Sigurjón Þórðarson, þingmann Frjálslynda flokksins, um að fara með ósannindi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Bjarni sendi frá sér í morgun. Hann segir ummæli Sigurjóns um að hann hafi neitað að afhenda gögn vegna umsóknar um ríkisborgararétt hreinan uppspuna. Sigurjón vísar þessu á bug. Von er gögnum vegna þeirra erinda sem allsherjarnefnd hefur afgreitt á kjörtímabilinu síðar í dag.

Gunnlaugur skipaður aðstoðaryfirlögregluþjónn

Gunnlaugur K. Jónsson hefur verið skipaður aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Frá áramótum hefur hann verið annar tveggja starfsmanna innri endurskoðunar embættisins. Gunnlaugur hóf störf hjá lögreglunni í Reykjavík árið 1977. Hann útskrifaðist úr Lögregluskólanum árið 1979 og starfaði í almennri deild og umferðardeild.

Þrír 13 ára gripnir við innbrot

Þrír 13 ára piltar voru staðnir að verki við að gera tilraun til innbrots í áhaldageymslu Hitaveitu Suðurnesja í Reykjanesbæ í gærkvöldi. Lögreglunni barst tilkynning um málið rétt fyrir klukkan tíu og fór þegar á staðinn. Drengirnir voru færðir á lögreglustöðina við Hringbraut. Foreldrar piltanna sóttu þá þangað eftir yfirheyrslu.

Óvenjumikið af sílamávi við tjörnina

Óvenjumikið er af sílamávi við tjörnina um þessar mundir. Þetta segir meindýraeyðir í samtali við fréttastofu Vísis. Hann segir hundruðir sílamáva á tjörninni. Það sé meira en verið hefur. Flestir borgarbúar vilja að borgin stemmi stigu við ágangi sílamáva á útivistarsvæðum.

Breyttur útivistartími barna og unglinga

Útivistartími barna og unglinga tók breytingum í gær og framvegis mega 12 ára börn og yngri ekki vera úti lengur en til klukkan tíu á kvöldin. Unglingar á aldrinum 13 til 16 ára mega vera úti til klukkan tólf á miðnætti

Flugfreyjur vilja ræða þjónustubreytingar við stjórn Icelandair

Flugfreyjufélag Íslands hefur óskað eftir viðræðum við stjórn Icelandair eftir félagið ákvað að fækka flugfreyjum um borð í vélum á leið til Bandaríkjanna úr fimm í fjórar. Formaður Flugfreyjufélagsins segir viðbúið að draga muni úr óskilgreindri þjónustu um borð. Upplýsingafulltrúi Icelandair segir að farþegar muni ekki finna fyrir breytingunum.

Styttri kjarasamningar vegna óvissu og ójafnvægis í efnhagslífinu

Þensla og ójafnvægi í efnhagslífinu mun væntanlega valda því að samið verði til færri ára í komandi kjarasamningum en hingað til hefur þekkst. Þetta kom fram í máli Sigurðar Bessasonar, formanns Eflingar stéttarfélags, í hádegisviðtali á Stöð 2 í dag. Hann segir skuldir heimilanna hafa margfaldast á undanförnum árum vegna rangra ákvarðanna stjórnvalda. Rúmlegur þriðjungur félagsmanna í Eflingu stéttarfélags í dag er af erlendu bergi brotinn og hefur þeim fjölgað gríðarlega frá aldamótum.

Algengt að um 200 starfsmenn leiti til heilsugæslu Kárahnjúka

Trúnaðarmaður verkalýðsfélaga á Kárahnjúkum segir ekki óalgengt að um tvö hundruð starfsmenn leiti til heilsugæslu í hverjum mánuði vegna allskyns kvilla. Hann segir fjölda þeirra sem veikjast ekki hafa aukist sérstaklega á milli mánuða.

Treystum velferðina og útrýmum fátækt , kjörorð dagsins

Treystum velferðina og útrýmum fátækt voru kjörorð dagsins í tilefni af fyrsta maí. Forseti ASÍ segir ólíðandi að fimm þúsund börn séu undir fátækramörkum hér á landi og segir nauðsynlegt að leiðrétta kjör eldri borgara. Fjölmargir tóku þátt í kröfugöngu í tilefni dagsins.

Vinnuslys við Kárahnjúka

Karlmaður slasaðist við Kárahnjúka í nótt þegar vörubifreið sem hann var að vinna á valt. Maðurinn var fluttur á sjúkrahúsið á Neskaupstað.

Hátíðahöldin gengið vel fyrir sig

Mörg þúsund manns tóku þátt í fyrsta maí göngunni í Reykjavík og hefur þátttakan ekki verið meiri í mörg ár að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Allt hefur gengið slysalaust fyrir sig og samkvæmt áætlun.

Standa þarf vörð um velferðina

Samfélög sem hafa velferðarhugsjón verkalýðshreyfingarinnar að leiðarljósi eru þau samfélög sem farnast best. Þetta kom fram í ávarpi Grétars Þorsteinssonar, forseta Alþýðusambands Íslands, á útifundi á Ingólfstorgi í dag í tilefni af baráttudegi verkalýðsins. Hann krefst þess að nafn Íslands verði tekið af lista þeirra þjóða sem studdu innrásina í Írak.

Frelsið er ekki bara fyrir hina fjáðu

Mikilvægt er að tryggja jafnvægi og verjast ásókn gróðaaflanna sem hugsa ekki lengra en fram að næsta tíkalli. Þetta kom fram í ræðu Ögmundar Jónassonar, formanns Bandalags starfsmanna ríkis og bæjar, á fyrsta maí hátíðarhöldunum á Akureyri í dag. Hann segir hlutverk verkalýðssamtaka sjaldan meira en nú.

Heilbrigðiskerfið að brenna til kaldra kola

Grunnstoðir heilbrigðiskerfisins eru að brenna til kaldra kola og ekki verður lengur við neitt ráðið. Þetta kom fram í ræðu Kristínar Á. Guðmundsdóttur, formanns Sjúkraliðafélags Íslands, á fyrsta maí hátíðahöldunum á Ingólfstorgi í Reykjavík í dag. Hún sagði heilbrigðiskerfið vera í molum.

Vísa ummælum formanns Geðlæknafélagsins á bug

Ummæli formanns Geðlæknafélags Íslands um að framlög ríkisins til geðfatlaðra hafi brunnið upp í verðbólgunni eru fjarri lagi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu. Þar segir ennfremur að rangar upplýsingar séu ekki til þess fallnar að greiða götu átaks í þágu geðfatlaðra.

Blóðbankinn í nýtt húsnæði

Blóðbankinn er að flytja starfsemi sína að Snorrabraut 60, byrjað verður að taka á móti blóðgjöfum í nýjum húsakynnu mánudaginn 7. maí.

Sinueldar valda astmaveikum óþægindum

Sýslumaðurinn á Akureyri telur að banna eigi bændum að brenna sinu. Astmaveikir urðu fyrir miklum óþægindum vegna reykjarkófs í Eyjafjarðarsveit um helgina.

Baráttudegi verkalýðsins fagnað

Fyrsta maí kröfuganga fer frá hlemmi í dag og leika Lúðrasveit verkalýðsins og Lúðrasveitin Svanur fyrir gönguna. Safnast verður saman við Hlemm klukkan eitt en gangan leggur af stað klukkan hálf tvö.

Lokað fyrir innlagnir á Egilsstöðum

Lokað verður fyrir innlagnir á Sjúkrahúsið á Egilsstöðum yfir sumartímann vegna manneklu. Ekki hefur tekist að manna stöður og vantar 18 stöðugildi til að halda uppi eðlilegri starfsemi.

Aðrennslisgöngum lokað aftur vegna mengunar

Aðrennslisgöng Kárahnjúka voru opnuð í gærkvöld eftir að þeim var lokað vegna slæmrar mengunar í síðustu viku. Loka þurfti göngunum aftur þar sem mengunin fór upp að viðmiðunarmörkum í gær. Leggja þurfti niður störf á tuttugu metra kafla í göngunum.

Securitas tekur við öryggisleit á Reykjavíkurflugvelli

Öryggisfyrirtækið Securitas mun taka við vopna- og öryggiseftirliti vegna millilandaflugs um Reykjavíkurflugvöll frá og með deginum í dag. Er þetta í fyrsta skipti sem einkafyrirtæki er falin umsjón með öryggismálum á Reykjavíkurflugvelli.

Mokveiði í Elliðavatni

Mokveiði hefur verið í Elliðavatni í dag og fiskurinn sjaldan litið jafn vel út. Opnað var fyrir veiði í vatninu í morgun og eru nú þegar fjölmargir byrjaðir að veiða. Veiðivörður segist aldrei hafa séð annað eins.

Lést af völdum sjúkdóms

Bráðabirgðaniðurstaða krufningar mannsins, sem lést eftir að hafa fundist liggjandi í blóði sínu í Hveragerði síðastliðinn föstudag, er sú að um sjúkdóm hafi verið að ræða. En sjúkdómurinn olli mikilli blæðingu. Rannsókn málsins er að mestu lokið.

Sjá næstu 50 fréttir