Innlent

Dregið úr reykingum um helming síðustu 12 ár

Hlutfall nemenda í 10. bekk sem reykja daglega hér á landi hefur lækkað um nær helming á 12 árum. Þá hefur dregið verulega úr drykkju þeirra á sama tímabili. Þetta eru niðurstöður úr nýrri ESPAD rannsókn sem kynntar voru í dag.



Evrópska vímuefnarannsóknin European School Survey Project on Alcohol and Other Drugs er samvinnuverkefni fræðimanna í rúmlega fjörutíu Evrópulöndum. Rannsóknin byggir á samræmdum mælingum sem fylgjast með breytingum á neyslu tóbaks, áfengis og annarra vímuefna í 10. bekk grunnskóla yfir 12 ára tímabil og á milli landa.

Þegar kemur að reykingum tíundu bekkinga sýna niðurstöður að hlutfall þeirra sem reykja daglega hefur lækkað um nær helming. Árið 1995 reyktu 21% nemenda daglega en í ár reykja 11% daglega. Samkvæmt þessu hlutfalli má gera ráð fyrir að um fimm hundruð nemendur í 10.bekk reyki daglega.

Þá sýna rannsóknir að ölvun unglinga hefur minnkað mikið á síðustu 12 árum. Hlutfall þeirra sem hafa orðið drukknir lækkar úr 64 % árið 1995 í 42 % árið 2007. Frá árinu 1995 til 1999 jókst hassneysla nemenda í 10. bekk grunnskóla verulega . Í ár er hassneysla tíundu bekkinga sú sama og hún var árið 1995. Hlutfall þeirra sem nota hass reglulega minnkar mun hægar en hlutfall þeirra sem einhvern tímann hafa prófað efnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×