Innlent

Standa þarf vörð um velferðina

MYND/EÓL

Samfélög sem hafa velferðarhugsjón verkalýðshreyfingarinnar að leiðarljósi eru þau samfélög sem farnast best. Þetta kom fram í ávarpi Grétars Þorsteinssonar, forseta Alþýðusambands Íslands, á útifundi á Ingólfstorgi í dag í tilefni af baráttudegi verkalýðsins. Hann krefst þess að nafn Íslands verði tekið af lista þeirra þjóða sem studdu innrásina í Írak.

Grétar lagði í ávarpi sínu áherslu á standa þurfi vörð um velferðina og treysta hana á komandi árum. Sagði hann velferðarkerfið hafa sannað gildi sitt þrátt fyrir að til séu menn sem telji það hamla framförum og sjálfsbjargarviðleitni.

Grétar sagði ennfremur að komandi kjarasamningum verði lögð áhersla á að tryggja og byggja ofan á þá samfelldu kaupmáttaraukningu sem undangengnir kjarasamningar hafi skilað. Jafnframt verði lögð áhersla á nauðsynlegar lagfæringar á velferðarkerfinu.

Þá gagnrýndi Grétar ríkisstjórnina fyrir stuðning hennar við innrásina í Írak. Sagði hann hernaðinn hafa gert ástandið enn verra en það var fyrir. Uppá þetta hafi íslenska þjóðin verið látin kvitta að henni forspurðri. Krafðist hann þess að nafn Íslands verði tekið af lista þeirra þjóða sem studdu innrásina.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×