Innlent

Lokað fyrir innlagnir á Egilsstöðum

Lokað verður fyrir innlagnir á Sjúkrahúsið á Egilsstöðum yfir sumartímann vegna manneklu. Ekki hefur tekist að manna stöður og vantar 18 stöðugildi til að halda uppi eðlilegri starfsemi.



Forsvarsmenn Sjúkrahússins á Egilsstöðum hafa ákveðið að loka fyrir innlagnir frá og með 11. maí næstkomandi fram í lok ágúst. Ekki hefur tekist að manna stöður yfir sumartímann og vantar aðallega hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og lækna.



Sjúkrahúsið hefur 26 rúm en sjúklingar sem þar liggja dvelja þar áfram, en engar auka innlagnir verða frá og með 11.maí. Heilsugæsla, bráða og slysadeild og mæðra-og ungbarnavernd verða hins vegar starfrækt áfram á staðnum. Pétur Heimisson yfirlæknir á sjúkrahúsinu segir sjúkrahúsið ekki geta veitt fulla þjónustu yfir sumartímann vegna manneklu og því hafi verið gripið til þessara ráða.



Tekist hefur að ráða fólk úr menntaskóla og háskóla í nær flestar umönnunarstöður á spítalanum. Pétur segist engar skýringar hafa á því af hverju ekki hefur tekist að manna stöður hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða.



Pétur segir heilsugæsluna annast öll þau bráða-og neyðartilvik sem upp kunni að koma í sumar en í þeim tilfellum sem innlagnar sé þörf sé nærtækasta sjúkrahúsið á Neskaupsstað. Málið verður tekið til endurskoðunar í hverri viku í sumar ef aðstæður breytast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×