Fleiri fréttir

Kajakræðari fundinn eftir mikla leit

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út í kvöld til leitar að erlendum kajakræðara sem saknað var við austari Jökulsá. Síðast sást til hans á sjötta tímanum í dag en hann hugðist róa niður ánna. Þegar hann var ekki kominn niður ánna um kvöldmatarleytið var farið að grennslast fyrir um afdrif hans. Maðurinn kom í leitirnar klukkan 21:30 í kvöld, heill á húfi er hann gekk fram á björgunarsveit.

Sinubruni í Fossvogsdalnum

Sina brennur nú í Fossvogsdalnum. Slökkvilið er komið á staðinn og telur að það muni ná stjórn á eldinum innan fárra mínútna. Eldsupptök eru ókunn en slökkvilið telur líklegt að einhverjir krakkar hafi verið að leika sér og misst stjórn á eldinum.

Kjarvalshús til sölu

Húsið sem byggt var af íslensku þjóðinni fyrir Jóhannes Kjarval myndlistarmann er nú til sölu. Ekki er vitað til þess að listamaðurinn hafi nokkurn tíman komið inn í húsið. Húsið stendur á sjávarlóð á Sæbraut á Seltjarnarnesi og þaðan er glæsilegt útsýni. Stofan var ætluð sem vinnustofa Kjarvals, en hún er hundrað og tíu fermetrar og skartar fimm metra lofthæð.

Landlæknir segir aðeins tíu hafa veikst

Landlæknir segir fjarri lagi að um 180 manns hafi veikst í aðrennslisgöngum Kárahnjúka, eins og talið var. Um hafi verið að ræða vinnulista sem læknirinn átti eftir að vinna úr. Líiklega hafi tíu veikst og þar af sjö alvarlega.

Stjórnarandstaðan vill öll draga úr stóriðju

Stjórnarandstöðuflokkarnir eru allir sammála um stóriðjuhlé, að minnsta kosti á suðvesturhorninu, til að draga úr þenslu en hvorugur stjórnarflokkanna er tilbúinn að forgangsraða stórframkvæmdum á næsta kjörtímabili. Þetta kemur fram í svörum flokkanna við spurningum fréttastofu um peningapólitík.

Missti félagsíbúð því hún sparaði ekki nóg

Mosfellsbær sagði einstæðri móður og þunglyndissjúklingi upp félagslegri íbúð vegna þess að hún hafði ekki, af bótum sínum, lagt nægilega fyrir, að mati bæjarins. Formaður fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar segir reglurnar ekki settar af mannvonsku heldur til að hjálpa fólki.

Hitaveita Suðurnesja 50 milljarða króna virði

Hæsta tilboð í fimmtán prósenta hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja þýðir að fyrirtækið er talið ríflega þrefalt verðmætara en bókfært virði þess. Geysir Green Energy bauð 7,6 milljarða króna. Fjármálaráðherra hefur þegar ákveðið að taka tilboðinu, sem þýðir að einkaaðilar komast í fyrsta sinn til áhrifa í einu af stóru orkufyrirtækjum landsins.

Bjarni Ármannsson hættir hjá Glitni

Bjarni Ármannsson lét í dag af störfum sem forstjóri Glitnis í kjölfar valdatöku nýs meirihluta í bankanum. Við starfinu tekur Lárus Welding, sem kemur frá Landsbankanum í London. Bæði Bjarni og nýr stjórnarformaður bankans, Þorsteinn M. Jónsson, neita því að Bjarni hafi verið rekinn.

Sakar Bjarna um lygar

Sigurjón Þórðarson þingmaður frjálslyndra vænir félaga sína í allsherjarnefnd um ósannindi í umræðum um veitingu ríkisborgararéttar til tilvonandi tengdadóttur umhverfisráðherra. Formaður nefndarinnar segir fullyrðingar Sigurjóns rakalausar dylgjur.

Ungir ökumenn á ofsahraða

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af 22 ára karlmanni sem keyrði bifhjól á 120 km hraða á Snorrabraut. Við frekari athugun kom í ljós að hjólið var stolið. Lögreglan tók 25 ökumenn fyrir hraðakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina, þar á meðal nokkra ungir ökumenn fyrir ofsaakstur.

Erum bara að slökkva elda

Alls vantar 18 starfsmenn á sjúkrahús Egilsstaða til að fullmanna allar vaktir að sögn fulltrúa framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Ákveðið hefur verið að loka á allar innlagnir á sjúkrahúsið frá og með 11. maí næstkomandi. Sjúklingar verða þess í stað fluttir til Akureyrar, Reykjavíkur eða Norðfjarðar.

Sautján ára þarf að taka bílpróf aftur

Sautján ára ökumaður var tekinn rétt eftir miðnætti í nótt á 141 km hraða á Hafnarfjarðarvegi í Garðabæ þar sem hámarkshraði er 60. Hann er fyrsti ökumaðurinn sem mun hlíta refsiákvæðum nýrra umferðarlaga sem tóku gildi á föstudag. Ætla má að samkvæmt þeim verði hann settur í akstursbann og þurfi að sæta hárri fjársekt. Þá mun hann einnig þurfa að taka bílpróf aftur.

Bakkelsi lækkaði minna en virðisaukinn

Verð í flestum bakaríum lækkaði minna en sem nemur lækkun virðisaukaskatts 1. mars síðastliðinn. Þetta eru niðurstöður verðmælinga verðlagseftirlits ASÍ í tuttugu og einu bakaríi á höfuðborgarsvæðinu. Nokkuð algengt var að verð lækkaði niður í næsta jafna tug í stað nákvæmrar lækkunar um rúm sex prósent til samræmis við lækkun virðisaukaskatts. Algengast var að verð lækkaði milli fjögur og sex prósent.

Úthlutað úr Minningarsjóði Eðvarðs Sigurðssonar

Katrín Ólafsdóttir hlýtur styrk úr Minningarsjóði Eðvarðs Sigurðssonar fyrir árið 2007 en úthlutað var úr sjóðnum í dag. Alls hlýtur Katrín 500 þúsund króna styrk fyrir rannsókn hennar sem ber heiti "Er íslenskur vinnumarkaður sveigjanlegur?"

Tuttugu milljónum úthlutað úr Þróunarsjóði grunnskóla

Úthlutað hefur verið úr Þróunarsjóði grunnskóla fyrir næsta skólaár en alls voru veittar tuttugu milljón króna úr sjóðnum. Hæsta styrkinn fékk Borgarbyggð, 1,5 milljón króna, fyrir verkefnið Borgarfjarðarbrúin.

Hjálmlaus börn send gangandi heim

Lögreglumenn á Vestfjörðum hafa undanfarið fylgst með hjálmanotkun barna á reiðhjólum. Í umferðarlögum er börnum yngri en 15 ára skylt að nota hjálma við hjólreiðar. Nokkur börn hafa verið send gangandi heim til að sækja hjálminn í fylgd með lögreglu, sem ræddi síðan við barnið og forráðamenn þess um hjálmaskylduna.

Verðmætasti hlutur einkaaðila í orkufyrirtæki

Geysir Green Energy bauð hæst í eignarhlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Tilboðin voru opnuð á Hótel Sögu í dag. Geysir bauð rúmlega sjö og hálfan milljarð króna í hlutinn. Það er næstum tvöfalt hærra verð en næsthæsta tilboðið hljóðaði upp á. „Þetta er án efa verðmætasti hlutur einkaaðila í orkufyrirtæki hér á landi,“ segir Árni Magnússon forstöðumaður fjárfestinga hjá Glitni.

Karlmaður slasast illa í bílveltu

Karlmaður slasaðist illa þegar vörubifreið sem hann ók valt á brúnni við Brú í Hrútafirði laust fyrir klukkan tólf í morgun. Maðurinn sat fastur inni í bifreiðinni áður en björgunarmönnum tókst að losa hann fyrir skemmstu.

Fólk hvatt til að mæta á baráttufundi

Fyrsti maí, alþjóðlegur baráttudagur verkamanna verður haldinn hátíðlegur með baráttufundum um allt land á morgun. Fólk er hvatt til að fjölmenna í kröfugöngur og á útifundi.

Vörubíll valt á brú við Brú í Hrútafirði

Búið er að kalla út þyrlu landhelgisgæslunnar vegna umferðaróhapps við Brú í Hrútafirðir. Vörubíll valt á brúnni og situr ökumaður fastur í bílnum. Þjóðvegur eitt er lokaður á svæðinu vegna slyssins.

Yfirlæknir á Kárahnjúkum harðlega gagnrýndur

Impregilo gagnrýnir yfirlækninn á Kárahnjúkum harkalega í yfirlýsingu sem fyrirtækið sendi frá sér nú rétt fyrir hádegi. Ásakanir hans eru sagðar ýktar, misvísandi og rangar.

Vænir félaga sína í allsherjarnefnd um ósannindi

Sigurjón Þórðarson þingmaður Frjálslynda flokksins vænir félaga sína í allsherjarnefnd þingsins um ósannindi í pistli á heimasíðu sinni í dag. Veiting ríkisborgararéttar til tilvonandi tengdadóttur Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra er tilefni pistilsins, sem ber yfirskriftina "Bjarni Benediktsson segir ósatt".

Dómari víkur ekki sæti

Héraðasdómur Reykjavíkur hafnaði í nú rétt fyrir hádegi kröfu lögmanna olíufélanna að Sigrún Guðmundsdóttir, héraðsdómari, viki sæti í máli olíufélaganna gegn samkeppniseftirlitinu og íslenska ríkinu.

Lokuðu fyrirvaralaust salernisaðstöðu bílstjóranna

Bílstjórar hjá leigubílastöðinni BSH í Hafnarfirði segjast hafa verið beittir órétti eftir að eigendur stöðvarinnar brugðu á það ráð að loka fyrirvaralaust hvíldar- og salernisaðstöðu bílstjóranna síðastliðinn laugardag. Formaður bílstjórafélagsins Fylkir segir að með þessu séu eigendurnir að ná sér niðri á bílstjórunum en þeir hafa allir sagt upp hjá stöðinni. Einn eigandi leigubílastöðvarinnar BSH segir málið byggt á misskilningi.

Grunnskólanemendur á Stöðvarfirði kanna mengun í þorpinu

Stöðfirðingar aka að meðaltali 188 kílómetra innanbæjar og heila 1108 kílómetra utanbæjar. Bifreiðar bæjarbúa blása því um 370 tonnum af koltvísíringi á ár eða um 30,8 tonnum á mánuði. Þetta kemur fram í könnun sem nemendur í 9. og 10. bekk grunnskólans hafa unnið að í vetur.

Brýnt að bæta búsetuúrræði fyrir fatlaða á Suðurlandi

Búsetuúrræði fatlaðra á Suðurlandi hafa þróast til verri vegar á síðustu árum um leið of stöðug fjölgun íbúa hefur verið á svæðinu. Í ályktun frá stjórn Þroskahjálpar á Suðurlandi kemur fram að brýn þörf sé á því að auka þjónustu á svæðinu og að biðlistar hafi verið að lengjast jafnt og þétt á liðnum árum.

Ákveðið í dag hvort dómari víki sæti í olíumálinu

Kveðinn verður upp úrskurður í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir hádegi í dag hvort Sigrún Guðmundsdóttir, héraðsdómari, víki sæti í máli olíufélaganna gegn Samkeppniseftirlitinu. Lögmaður Olís telur Sigrúnu hafa gert sig vanhæfa eftir að hafa dæmt í öðrum skaðabótamálum gegn olíufélögunum.

Iðrast barsmíðar á hesti

Í þættinum Kompás sem sýndur var nú í kvöld á Stöð 2 var sýnt átakanlegt myndband af manni sem lemur hest sinn ítrekað og sparkar undir kvið hans og lemur hann margoft í hausinn. Maðurinn segist ekki eiga sér neinar málsbætur í þessu máli. Það sem komi fram á þessu myndbandi sé ekki fögur sjón og hann sjái mikið eftir þessu. Hesturinn sem um ræðir er 12 vetra barnahestur. "Ég var að ná úr honum kergjunni," segir hann.

Skilgreining á kostnaðarverði lóða mismunandi

Einbýlishúsalóð í Hafnarfirði kostar innan við sjö milljónir króna, en ellefu milljónir í Reykjavík. Ellefu milljónir er kostnaðarverð, segir formaður skipulagsráðs - það fer eftir skilgreiningu á kostnaðarverði, segir Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði.

Ríkisborgararéttur tengdadóttur ráðherra er skandall

Tengdadóttir umhverfisráðherra fékk ríkisborgararétt á undanþágu vegna þess að hún tengist framsóknarráðherrafjölskyldu og það er léttur skandall. Þetta er skoðun Össurar Skarphéðinssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, sem vill að málið verði skoðað.

Hitamet slegin á Norðurlandi

Hitamet var slegið í Ásbyrgi í dag þegar hitinn mældist tuttugu og tvær komma sex gráður. Aldrei áður hefur hiti mælst svo hár í þessum mánuði. Aprílmetið var tuttugu og ein komma átta gráður sem mældust á Sauðanesi í apríl 2003. Og það var heldur enginn kalsi á Akureyri en þar var rösklega þrítugt hitamet slegið þegar hitinn komst í tuttugu og eina komma fimm gráður.

Samningur um dvöl vesturíslendinga hérlendis

Þjóðræknisfélag Íslendinga og Landsbankinn hafa gert með sér samning sem næstu fimm árin gerir vesturíslenskum ungmennum kleift að koma hingað til dvalar. Undirritun samningsins fór fram í Winnipeg í Manitoba.

Stórfyrirtæki áhugasöm um netþjónabú á Íslandi

Orkuveita Reykjavíkur á í viðræðum við tvö erlend stórfyrirtæki um netþjónabú á Íslandi. Rysjótt veðurfar er meðal þess sem gerir Ísland að fýsilegum kosti fyrir slík tölvubú. Fyrirtækið Data Íslandia áformar að reisa tíu gagnageymslur hér á næstu tveimur árum. Geymslurnar eiga að skapa 200 störf.

Biðlistum í heilbrigðisþjónustu verði útrýmt

Biðlistar eftir heilbrigðisþjónustu barna og aldraðra eru svartur blettur á velferðarkerfi Íslendinga. Þeir eru birtingarmynd vanrækslu og skorts á samfélagslegri ábyrgð. Þetta sagði formaður þingflokks Samfylkingarinnar á blaðamannafundi í dag þar sem stefnumál flokksins í heilbrigðismálum voru kynnt.

Varað við lyfi gegn magakveisu ungbarna

Lyfið Minifom, sem fjölmörgum hvítvoðungum er gefið við magakveisu, inniheldur rotvarnarefni sem geta haft hormónatruflandi áhrif. Norska lyfjastofnunin hefur því varað við notkun þess. Málið er til athugunar hjá Lyfjastofnun Íslands.

Foreldrar bannaðir í unglingahóp

Foreldrar eru stranglega bannaðir í nýjum unglingahóp sem hefur verið stofnaður innan Einstakra barna. Félagsskapurinn hélt upp á tíu ára afmæli sitt í dag með mikilli hátíð í Gerplusalnum í Salahverfi Kópavogs. Á hátíðinni í dag voru hoppukastalar andlitsmálun, happdrætti og ýmislegt góðgæti í tilefni dagsins.

Sjá næstu 50 fréttir