Innlent

Vonast til að auglýsing eftir staðgöngumóður verði til hagsbóta

Konan sem auglýsti eftir staðgöngumóður, segist gera það í kjölfar læknamistaka. Hún vonast til að umræðan um hennar mál leiði til lagabreytinga, öðrum til hagsbóta.

Par auglýsti í Morgunblaðinu 22. apríl síðastliðinn eftir staðgöngumóður, að fósturvísir frá parinu yrði notaður. Þar sem slíkt væri ekki löglegt hér á landi, yrði að gera aðgerðina erlendis. Þórður Óskarsson læknir og sérfræðingur hjá Art Medica sagði í fréttum Stöðvar 2 þann dag að hann væri þeirrar skoðunar að ekki væri rétt að taka fyrir þann möguleika að fólk geti eignast barn með þessum hætti og benti á að fyrir sum pör væri þetta eini möguleikinn.

Konan sem auglýsti eftir staðgöngumóðurinni sagði í samtali við Stöð 2 að þau hefðu ákveðið að reyna þessa leið eftir að mistök hafi verið gerð við fæðingu sonar þeirra hjóna, en þau leiddu til þess að leg konunnar var fjarlægt í kjölfarið. Að auglýsa eftir staðgöngumóður hafi verið einn möguleiki fyrir þau til að eignast fleiri börn. Hún sagðist vonast til að sú umræða sem varð í kjölfar auglýsingarinnar verði til þess að lögum um þetta verði breytt og muni því nýtast öðrum pörum sem eru í sömu aðstöðu og þau, í framtíðinni.

Hún segist hafa fengið góð viðbrögð við auglýsingunni, og vilja hjónin þakka þeim sem sýndu málinu áhuga og tóku þátt í umræðu um það. Konan segir ekkert hafi verið ákveðið eða frágengið um framhaldið. Varðandi hvar aðgerðin yrði gerð, nefndi hún Grikklandi sem möguleika, en þar væri væru svona aðgerðir heimilar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×