Innlent

Haturglæpir gegn samkynhneigðum fara vaxandi

Höskuldur Kári Schram skrifar
MYND/365

Hatursglæpir gegn samkynhneigðum einstaklingum fara vaxandi og þá sérstaklega gagnvart samkynhneigðum karlmönnum. Þetta kemur fram í máli formanns Samtakanna 78, í samtali við Vísi. Hann segist vita um mun fleiri tilfelli hatursglæpa á síðasta ári en árin þar á undan.

„Við vitum um fleiri dæmi á síðasta ári en árin þar á undan," segir Frosti Jónsson, formaður Samtakanna 78, í samtali við Vísi. „Ofbeldi sem beinist gegn einstaklingum eingöngu vegna kynhneigðar þeirra á sér stað hér á landi eins og annars staðar í heiminum."

Í desember á síðasta ári var ráðist á tvo karlmenn sem voru á leið á dansleik Samtakanna 78 með þeim afleiðingum að flytja þurfti þá á slysadeild. Kölluðu árásarmennirnir að þeim svívirðingum um kynhneigð þeirra áður en þeir gengu í skrokk á þeim. Þá réðst karlmaður á kynskipting í heimahúsi í febrúar á þessu ári og reyndi að kyrkja hann.

Frosti segir samkynhneigða karlmenn oftast fórnarlömb hatursglæpa af þessu tagi og yfirleitt séu árásarmennirnir ókunnugir. Hann segir þörf á frekari fræðslu til að berjast gegn hatursglæpum. „Það þarf að upplýsa og fræða almenning og senda skýr skilaboð út í samfélagið að ofbeldi sé með öllu ólíðandi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×