Fleiri fréttir

Skordýraeitur ógnar regnskógum Kosta Ríka

Skordýraeitur ógnar nú mjög vernduðum regnskógum í Kosta Ríka, jafnvel þó að því sé dreift í margra kílómetra fjarlægð frá skógarjaðrinum. Þetta er vegna þess að eitrið leysist upp í rigningarvatni, gufar upp og fellur svo strax aftur sem regn í skógunum. Þetta kemur fram í tímaritinu Enviromental Science & Technology. Meðal afleiðinga þessa er að froskar og skriðdýrategundir í útrýmingarhættu drepast úr eitrinu.

Yfir 60 umferðaróhöpp í borginni um helgina

Sextíu og fjögur umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina, flest minni háttar. Í þremur tilfellum var fólk flutt á slysadeild en í þeim hópi var 17 ára piltur sem velti bíl sínum á Suðurlandsvegi.

Þrennt flutt á slysadeild eftir árekstur í Garðabæ

Þrennt var flutt á slysadeild með minni háttar meiðsl um ellefuleytið í morgun eftir harðan árekstur tveggja bíla á mótum Reykjanesbrautar og Vífilstaðavegar Í Garðabæ. Breytingar standa nú yfir á gatnamótunum.

Rauðglóandi Visakort

Sænskri móður brá í brún þegar hún fékk Visa reikninginn sinn þar sem fram kom að hún hefði keypt fyrir rífar 260 þúsund krónur í vefversluninni Playahead. Það kom enda á daginn að það var þrettán ára dóttir hennar sem hafði gerst svona umsvifamikil í viðskiptum og keypt bæði fyrir sjálfa sig og fjörutíu félaga sína.

Menntaráð vill hækka styrki til einkarekinna grunnskóla

Menntaráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt að beina því til borgarráðs að hækka styrki til einkarekinna grunnskóla í borginni úr rúmum 515 þúsund krónum á nemanda á ári í 600 þúsund og að hækkunin verði afturvirk frá áramótum.

Stór hluti meintra kynferðisbrotamála felldur niður

262 af 380 málum sem bárust ríkissaksóknara vegna meintra kynferðisbrota voru felld niður á árunum 1999-2006. Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Valdimars Leós Friðrikssonar, þingmanns Frjálslynda flokksins.

Dæmdir fyrir pyntingar á Serbum

Hæstiréttur Króatíu hefur staðfest fangelsisdóma yfir átta fyrrverandi herlögreglumönnum fyrir að pynta og myrða serbneska fanga í stríðinu árið 1992. Fórnarlömb þeirra voru bæði serbneskir hermenn og almennir borgarar. Mennirnir fengu sex til átta ára fangelsisdóma.

Skattmann stekkur á Alexöndru

Þegar Alexandra prinsessa sagði já við kærastann sinn klukkan fjögur á föstudag, urðu umtalsverðar breytingar á hennar högum. Hún er nú ekki lengur prinsessa heldur aðeins greifynja, og danski skattmann mun hér eftir hirða drjúgan skerf af tekjum hennar.

Loftmengun minni eftir aldamót vegna meiri úrkomu

Loftmengun var meiri í Reykjavík árin 1995 til 2000 heldur en árin 2002 til 2006 að því er segir á vef umhverfisssviðs Reykjavíkurborgar. Ástæðan er sögð meðal annars meiri úrkoma og betri mengunarbúnaður í bifreiðum þrátt fyrir fjölgun bíla.

Konur í aðalhlutverki

Sendinefndin sem fylgdi Valgerði Sverrisdóttur utanríkisráðherra á ferð hennar um Afríku í síðustu viku var þorra ferðarinnar eingöngu skipuð konum. Ekki eru dæmi um að svo hátt sett sendinefnd hafi verið þannig skipuð.

Einstakar myndir af Satúrnusi

Geimfarið Cassini hefur sent til jarðar einstakar myndir af hringum Satúrnusar. Myndirnar eru teknar í um milljón kílómetra fjarlægð. Á myndunum má meðal annars sjá fylgitunglin Dione og Enceladus, sem hanga eins og örlitlir hvítir dílar út við sjóndeildarhringinn. Enceladus

Segja þriggja hæða gatnamót ekki auka lífsgæði

Íbúasamtök Hlíða, Holta, og Norðurmýrar í Reykjavík telja að hugmyndir um þriggja hæða gatnamót á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar verði engan vegin til að auka lífsgæði íbúa hverfanna með tilliti til útblásturs bíla og svifryksmengunar.

Hátt í 90 athugasemdir vegna virkjana í Þjórsá

Hátt í níutíu athugasemdir hafa borist skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu vegna þriggja fyrirhugaðra virkjana í Neðri-Þjórsá. Þær koma bæði frá einstaklingum, hópum og samtökum.

Grétar Mar Jónsson leiðir í Suðurkjördæmi

Grétar Mar Jónsson, skipstjóri í Sandgerði, leiðir lista Suðurkjördæmis Frjálslynda flokksins fyrir kosningarnar í vor. Óskar Þór Karlsson, formaður Samtaka fiskvinnslu án útgerða, tekur annað sætið.

Kæfa mótmæli í fæðingu

Nokkur ungmenni hafa verið handtekin nærri Ungdomshuset í morgun við það að reyna að stöðva niðurrif hússins. Einhverjir lögðust fyrir flutningabíla sem fjarlægja steypubrot frá húsinu. Jagtvej, gatan sem Ungdomshuset stendur við er lokuð og hefur lögregla það að markmiði að kæfa öll mótmæli í fæðingu.

Ung sænsk kona fær Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Sænski rithöfundurinn Sara Stridsberg hlýtur Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í ár. Sara, sem er 33 ára, fær verðlaunin fyrir skáldsöguna Draumadeildina, sem var gefin út í fyrra. Soffía Auður Birgisdóttir, formaður dómnefndar bókmenntaverðlaunanna tilkynnti niðurstöðuna í Norræna húsinu í morgun.

Engin niðurstaða komin í auðlindamálið

Forystumenn stjórnarflokkanna hittust í morgun til að ræða nýtt stjórnarskrárákvæði um auðlindir, sem stjórnarsáttmálinn gerir kröfu um. Engin niðurstaða er komin í málið. Geir H Haarde forsætisráðherra segir stjórnarsamstarfið ekki í neinni hættu. Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra segir þó "á mörkunum" að niðurstaða fáist fyrir kosningar.

Tekinn fyrir ölvunarakstur á flutningabíl

Ökumaður flutningabíls með fjörutíu feta gám á tengivagni var í hópi þeirr fjórtán manna sem teknir voru fyrir ölvunarakstur eða akstur undir áhrifum lyfja á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Maðurinn var gripinn í gær í Mosfellsbæ.

Al-Kaída hótar að myrða Harry

Hryðjuverkasamtökin Al-Kaída hafa hótað því að ræna Harry bretaprins, þegar hann verður sendur til Íraks, í maí næstkomandi, að sögn breska blaðsins The Sun. Blaðið segir að hótunin hafi komið fram á vefsíðu sem róttækir múslimar halda úti. "Múslimar í Írak munu drepa Harry prins, megi Allah gefa honum það sem hann á skilið," segir meðal annars á vefsíðunni.

84 kærðir fyrir hraðakstur á einni viku

84 voru kærðir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á Selfossi í vikunni sem leið. Segir á vef lögreglunnar að af þessum 84 hafi sjö ökumenn ekið of hratt á Hellisheiði á laugardag þar sem snjókrapi var á veginum og aðstæður með þeim hætti að slíkur hraðakstur var mikil ógn við aðra vegfarendur og stofnaði þeim í mikla hættu.

Reyna að finna Ungdomshuset nýjan stað

Styrktarsjóður Ungdomshuset hefur fjárráð til að kaupa nýtt hús fyrir þá starfsemi sem fram hefur farið á Jagtvej 69, í húsinu sem nú á samkvæmt heimildum Politiken að rífa. Þetta segir Knud Foldschack lögmaður styrktarsjóðsins. Lögmaðurinn áréttar hins vegar í samtali við Politiken að ungmennin sjálf hafi fyrirgert rétti sínum til að koma að þeirri ákvörðun hvar skuli kaupa nýtt hús, það sé sjóðsins og stjórnmálamanna að ákveða það. Hann segir að sjóðurinn sé hins vegar tilbúinn að láta unga fólkinu eftir að reka starfsemina eftir sem áður.

Stórt vopnabúr í Kaliforníu

Slökkviliðsmenn í Kaliforníu í Bandaríkjunum komu niður á milljón skothylki í göngum á einkalóð fyrir helgi. Eldur brenndi hluta þaks af húsinu fyrir ofan og var slökkvilið kallað til. Einhver skotfæri sprungu meðan eldur logaði í húsinu og hitnaði í göngunum. Þar voru, auk skotfæranna, rúm 30 kíló af svörtu byssupúðri, fjölmargar skammbyssur, haglabyssur og árásarrifflar.

Betra að róa menn niður en handtaka þá

Lögregla ætti ekki að beita menn, sem ganga berserksgang og eru með óráði, valdi heldur reyna að róa þá. Þetta segir danski réttarmeinafræðingurinn Peter Leth í samtali við fréttaskýringaþáttinn Kompás sem er á dagskrá í kvöld. Þar er fjallað um andlát Jóns Helgasonar, í höndum lögreglu, í lok nóvember á síðasta ári.

Siv á að segja af sér

Heilbrigðisráðherra á að segja af sér, að mati Sigurðar Kára Kristjánssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, vegna hótana ráðherrans um stjórnarslit ef sjálfstæðismenn samþykki ekki að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Hann efast um að sjálfstæðismenn verði við þessari kröfu framsóknarmanna. Heilbrigðisráðherra neitar að tjá sig um yfirlýsingar Sigurðar Kára.

Tollkvótar hækka matarverð

Ákvörðun stjórnvalda, um að bjóða upp innflutningskvóta á kjöti og ostum, stuðlar að hærra vöruverði og er andstæð markmiðum ríkisstjórnarinnar um að lækka matarverð. Þetta segir framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu. Dæmi eru um að framleiðendur hafi keypt kvóta til að hindra innflutning og halda verðinu uppi.

Uppörvandi fyrir hægri grænt framboð

Gallup-könnun, á fylgi við nýtt framboð umhverfisverndarsinna, sýnir að það hefur hljómgrunn meðal þjóðarinnar, segir Ómar Ragnarsson sem verður á lista flokksins í Reykjavík ásamt Margréti Sverrisdóttur og Jakobi Frímanni Magnússyni. Listinn býður fram í öllum kjördæmum fyrir kosningarnar í vor.

Hellir Íslandsmeistari skákfélaga

Taflfélagið Hellir tryggði sér í dag Íslandsmeistaratitilinn í skák eftir spennandi keppni í Rimaskóla. Hellir sigraði Taflfélag Vestmannaeyja öruggt, 6-2 í úrslitaviðureign. Hellir hlaut 47 vinninga af 56 mögulegum og tapaði sveitin einungis einni skák í allri keppninni sem er nýtt met. Eyjamenn urðu í öðru sæti með 42,5 vinninga og Taflfélag Reykjavíkur í 3. sæti með 35 vinninga. Þetta er fjórði titill Hellis, sem nú er orðið næstsigursælast íslenskra taflfélaga, einungis TR hefur unnið oftar.

Alvarlegt bílslys við Hvolsvöll

Alvarlegt bílslys varð rétt vestan við Hvolsvöll nú síðdegis þegar fólksbíll og sjúkrabíll rákust saman. Ökumaður fólksbílsins slasaðist illa í árekstrinum og er á leið til Reykjavíkur með sjúkrabíl. Lögregla sagði líklegt að þyrla Landhelgisgæslunnar mundi fljúga á móti sjúkrabílnum til að flytja manninn á slysadeild.

Ákvarðanir um gæslu teknar af utanríkisráðuneyti

Ákvarðanir um umfang öryggisgæslu á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, þ.m.t. fjöldi öryggisvarða eru teknar af utanríkisráðuneytinu, samkvæmt yfirlýsingu sem dómsmálaráðuneytið hefur sent Stöð 2.

Morðingi í leyfi drap aftur

Norskur karlmaður, Quang Minh Pham hefur verið handtekinn grunaður um að hafa myrt 31 árs gamlan mann sem saknað hafði verið í viku en fannst í skottinu á bíl Pham í gær. Pham, sem er 34 ára var dæmdur fyrir manndráp fyrir átta árum en var í leyfi frá fangelsinu þar sem hann afplánar 21 árs dóm. Verdens Gang í Noregi greinir frá þessu.

Arababandalagið vill skýr svör

Arababandalagið vill að Bandaríkjamenn gefi afsvar með það hversu lengi þeir ætla að hafa herafla í Írak. Aðalritari bandarlagsins Amr Moussa segir þetta helsta baráttumál bandalagsins sem nú fundar í Kaíró.

Eldur við Heilsugæslustöðina á Seltjarnarnesi

Lögregla og slökkvilið hafa verið kölluð að Heilsugæslustöðinni á Seltjarnarnesi þar sem logar í ruslageymslu. Að sögn lögreglu er eldurinn afmarkaður og lítil hætta á að hann breiðist út.

Enn nóg pláss í fangelsum

Fangelsismálastjóri Kaupmannahafnar óttast ekki plássleysi í fangelsum, jafnvel þó svo að til frekari átaka komi á Norðurbrú. Hann segir að enn sé pláss fyrir fleiri. Af þeim rúmlega 600 sem samtals hafa verið handteknir undanfarna sólarhringa sitja 218 enn í gæsluvarðhaldi.

Skutu átta óbreytta borgara til bana

Bandarískir hermenn skutu átta óbreytta borgara til bana og særðu meira en 30 til viðbótar fyrir utan Jalalabad í austurhluta Afganistan í dag. Þetta segir lögregla í Afganistan. Hermennirnir hófu skothríð eftir að sjálfsmorðssprengjumaður gerði á þá árás. Sprengjumaðurinn var sá eini sem lést í sprengingunni en ekki er ljóst hvort hermenn hafi slasast í henni. Ekki hafa enn borist fréttir af því af hverju hermennirnir hófu skothríð á borgarana.

Friður á Fílabeinsströndinni

Laurent Gbagbo forseti Fílabeinsstrandarinnar og Guillaume Soro foringi skæruliðasveita í landinu skrifuðu í dag undir friðarsamkomulag sem bindur enda á borgarastríð sem staðið hefur í fimm ár í landinu. Samningurinn er árangur mánaðrlangra viðræðna sem fram hafa farið í nágrannalandinu Burkina Faso með stuðningi Sameinuðu þjóðanna.

Allt á floti í Aðalstræti

Vatn flæddi yfir allt í húsinu við Aðalstræti 9 í dag. Kallað var á slökkvilið þegar um 15 sentímetra vatnslag hafði flætt yfir gólf á neðri hæðum hússins. Ekki er hægt að segja til um það hversu miklar skemmdir hafa hlotist en slökkvilið vinnur nú að því að dæla vatninu út. Í húsinu eru meðal annars sólbaðsstofa, lögmannsskrifstofur og skrifstofur Frjálslynda flokksins.

Þingkosningar í Eistlandi

Búist er við að sitjandi ríkisstjórn mið- og hægriflokkar í Eistlandi haldi velli í þingkosningum í landinu í dag. Kosningarnar eru þær elleftu frá því landið fékk sjálfstæði árið 1991. Kjörstaðir voru opnaðir klukkan sjö í morgun að íslenskum tíma og verður lokað klukkan sex. Búist er við að úrslit liggi fyrir klukkan tíu í kvöld.

Mengun eykst í Straumsvík við stækkun

Mengun frá álveri Alcan í Straumsvík eykst við stækkun þess. Þetta staðhæfir Stefán Georgsson verkfræðingur í grein sem hann skrifar í dag á vefsíðuna www.solistraumi.org. Varfærnislegt mat Stefáns er að losun flúoríðs rúmlega tvöfaldist, losun svifryks og gróðurhúsalofttegunda eykst enn meira. Þá segir Stefán mat sitt vera að 460 þúsund tonna álver eigi ekki heima í Straumsvík.

Landbúnaður skiptir þjóðina máli

95% þjóðarinnar segja skipta máli að landbúnaður verði stundaður hér á landi til framtíðar og rúm 60% þjóðarinnar eru tilbúin að greiða hærra verð fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir. Þetta er meðal þess sem kemur fram í könnun sem Capacent-Gallup gerði fyrir Bændasamtökin.

Risabarn fæddist í Kína

Kínversk kona ól á föstudag barn sem er það þyngsta sem komið hefur í heiminn í þessu fjölmennasta landi heims síðan 1949. Drengurinn sem enn hefur ekki fengið nafn fæddist 6,25 kíló eða 25 merkur. Móður og barni heilsast vel. Móðirin er strætóbílstjóri og gamall íþróttamaður og er engin smásmíð sjálf, hún vegur 120 kíló.

Sigurður Kári vill að Siv segi af sér

Sigurður Kári Kristjánsson segir að Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra eigi að segja af sér, hvort sem hún hafi meint eða ekki ummæli um að það varðaði stjórnarslitum ef Sjálfstæðismenn samþykktu ekki auðlindaákvæði í stjórnarskrá. „Mín skoðun er sú að í öllum alvöru ríkjum að ráðherra sem fer fram með þessum hætti að honum er nú varla sætt“, sagði Sigurður.

Sjá næstu 50 fréttir