Innlent

Hátt í 90 athugasemdir vegna virkjana í Þjórsá

Hátt í níutíu athugasemdir hafa borist skipulagfulltrúa uppsveita Árnessýslu vegna þriggja fyrirhugaðra virkjana í Neðri-Þjórsá. Þær koma bæði frá einstaklingum, hópum og samtökum.

Að sögn Péturs Inga Haraldssonar skipulagsfulltrúa í uppsveitum Árnessýslu eru eitthvað yfir 20 athugasemdir samhljóða frá jafn mörgum einstaklingum en svo koma athugasemdir frá Framtíðarlandinu, Náttúruverndarsamtökum Íslands og Sól í Straumi.

Þá kemur ein frá Axel Árnasyni, sóknarpresti á Stóra-Hofi sem hann sendir sem sálnahirðir á svæðinu í nafni embættisins. Athugasemdirnar eru mjög mismunandi efnismiklar og taka á mörgum þáttum.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps kemur saman á morgun og fer yfir þær og líklega þarf hún að leita nánari upplýsinga hjá Landsvirkjun og fleiri um ýmis atriði.

Síðan liggur fyrir að svara hverri einustu athugasemd efnislega og svo þarf sveitarstjórnin að taka ákvörðun í málinu. Að því búnu fer málið til Skipulagsstofnunar og loks þarf umhverfisráðherra að staðfesta niðurstöðu hennar þegar þar að kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×