Fleiri fréttir

3000 ferðamenn á Íslandi um þessi áramót

Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum ferðaþjónustunnar dvelja um 3000 ferðamenn á Íslandi um þessi áramót. Erna Hauksdóttir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir ferðamenn vera 15 prósentum fleiri um þessi áramót en þau síðustu.

Fiskafli hefur minnkað um 5% frá því í fyrra

Fiskafli hefur minnkað ár frá ári og er nær 5% minni á þessu ári en í fyrra. Rækjuafli hefur ekki verið minni í aldarfjórðung. Heildarafli ár er um 500 þúsund tonnum minni en hann var árið 2002 og hefur stigminnkað undanfarin ár. Verðgildi aflans hefur þó ekki dregist saman sem þessu nemur þar sem stöðugt er reynt að auka verðmæti þeirra tonna sem þó eru veidd.

Útakakstur vegna hálku við Brú í Hrútafirði

Bíll fór út af veginum við Brú í Hrútafirði rétt fyrir hádegi. Engin slys urðu á fólki en ökumaður var einn í bílnum. Bíllinn er mikið skemmdur en mikil hálka var á veginum.

Eldur kviknaði í húsi á Kambsvegi

Slökkvilið Reykjavíkur var kallað út vegna elds í íbúðarhúsi á Kambsveg um klukkan hálf tólf. Íbúar hússins náðu að slökkva eldinn með slökkvitæki og koma sér út út húsinu áður en slökkviliðið kom á staðinn. Ekki hlaust af mikið tjón en reykræsta þurfti húsið.

Sjálfstætt starfandi hjartalæknar hafa sagt upp samningi við TR

Sjálfstætt starfandi hjartalæknar hafa sagt upp samningi við Tryggingastofnun ríkisins og taka uppsagnirnar gildi frá og með 1. apríl 2006. Ástæða uppsagnanna er sögð vera sú að ekki náðist samkomulag um nauðsynlegar breytingar á gildandi samningi Læknafélags Reykjavíkur og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins fyrir hönd Tryggingarstofnunar ríkisins, þrátt fyrir margra mánaða samningstilraunir.

Íslandspóstur læsir póstkössum

Síðastliðin ár hefur Íslandspóstur læst póstkössum sem staðsettir eru utanhúss á höfðuborgarsvæðinu yfir áramót. Er þetta gert vegna ítrekaðra skemmda sem unnin eru á póstkössunum í kringum áramót.

Halldór býður sig fram í 1. sæti framboðslista sjálfstæðismanna

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, hefur ákveðið að bjóða sig fram í 1. sæti framboðslista sjálfstæðismanna til sveitastjórnarkosninganna í vor. Halldór vonast eftir góðum stuðning og stefnir að ná góðum árangri flokksins í kosningunum í vor, hljóti hann umboð sem oddviti framboðslistans.

Oktavía sökuð um að hafa farið á bak við kjósendur sína

Formaður Samfylkingarinnar á Akureyri sakar Oktavíu Jóhannesdóttur um að hafa farið á bak við kjósendur sína með ákvörðun sinni um að ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Hann segir ákvörðun hennar koma sér á óvart þó Oktavía hafi ekki mætt á bæjarmálafundi í nokkra mánuði. Samfylkingarmenn vilja hana úr bæjarstjórn.

Mál Norðlingaölduveitu aftur í höndum nefndar um skipulag miðhálendisins

Umhverfisráðherra segir mál Norðlingaölduveitu nú aftur í höndum samvinnunefndar um skipulag miðhálendis. Ráðherra hafnaði tillögum nefndarinnar í gær á þeirri forsendu að lög sem sett voru í kjölfar úrskurðar setts umhverfisráðherra um veituna heimili ekki breytingar. Formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands vill að nefndin taki veituna út af skipulaginu og stækki þar með friðlandið.

Aldrei hafa færri banaslys orðið á ársgrundvelli frá árinu 1941

Aldrei hafa færri banaslys orðið á ársgrundvelli frá árinu 1941 en í ár létust 28 einstaklingur í slysum hér á landi og þrír íslenskir ríkisborgarar létust af slysförum erlendis. Í ár urðu flest slys í tengslum við umferðina líkt og oft áður en alls voru 19 einstaklingar sem létust í 16 slysum.

25 létust í snjóflóði í Pakistan

Að minnsta kosti 25 létu lífið í Pakistan í gær er snjóflóð féll í norðvesturhluta landsins. Mikil snjókoma hefur verið á svæðinu. Björgunarsveitir og þorpsbúar eru enn í óða önn að grafa upp lík en meirihluti fólksins er þó enn ófundinn. Lögreglan segir svæðið svo afskekkt að fréttir af flóðinu hafi borist degi eftir að það féll.

Lýst er eftir brúnum yorkshire terrier

Lítill brúnn yorkshire terrier týndist í Seláshverfinu í gær og er sárt saknað af eigendum sínum. Litla krílið var gestkomandi ásamt eigendum sínum í Seláshverfinu í gærkvöldi þegar hann týndist þannig að hundurinn er ekki kunnugur á þeim slóðum. Allir sem séð hafa til ferða þessa brúna litla hunds er bent á að hafa samband við eigandann í síma 848-3647

Ráðist á konu á skemmtistað í Keflavík

Ráðist var á konu á skemmtistað í Keflavík í nótt. Lögregla og sjúkralið voru kölluð til og var konan flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Var konan nefbrotin og með áverka í andliti. Lögregla segir að vitað sé hver árásarmaðurinn var en hann var farinn af staðnum þegar lögregluna var að.

Hjólför í nýföllnum snjó koma upp um þjófa

Nokkur snjór er nú víða í Danmörku en Danir reyna að láta það ekki raska ró sinni, ekki einu sinni þjófarnir sem halda áfram iðju sinni með misjöfnum árangri þó. Starfsmaður á bensínstöð í Nyköbing-Falster hafði samband við lögreglu vegna þess að slökkvitæki hafði verið stolið frá bensínstöðinni. Það reyndist lögreglunni auðvelt að hafa upp á þjófinum, sem var á hjóli og hafði skilið eftir sig slóð í nýföllnum snjónum.

Heyrnatól iPOD geta verið hættuleg

iPOD var meðal vinsælli jólagjafa þessi jólin en þeir sem nota heyrnartólin sem fylgdu með ættu að leggja við hlustir. Þessir litlu, fínlegu og flottu heyrnatól sem eru oft notuð með vasadiskóum af öllum gerðum geta nefnilega verið hættuleg, samkvæmt rannsóknum vísindamanna við Northwestern háskólann í Bandaríkjunum.

Pólskir hermenn verða í Írak til ársloka 2006

Lech Kaczynski forseti Póllands hefur samþykkt beiðni íhaldsstjórnar landsins um að halda pólskum hermönnum áfram í Írak til ársloka 2006. Um 1,500 pólskir hermenn og aðrir starfsmenn pólska hersins eru nú staðsettir í Írak.

Vinstri grænir vilja færa út friðarmörk á miðhálendinu

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs skorar á samvinnunefnd miðhálendisins að hafna alfarið öllum hugmyndum um Norðlingaölduveitu og leggur til að ný tillaga að skipulagi á svæðinu sunnan Hofsjökuls verði auglýst, þar sem friðlandsmörk Þjórsárvera verði færð út.

3,2 miljónum króna varið til baráttunnar gegn mansali

Utanríkisráðherra hefur ákveðið að verja 3,2 milljónum króna til baráttunnar gegn mansali á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2005 voru fjórar milljónir króna til ráðstöfunar til stuðnings verkefnum á sviði mannréttindamála og hafði 800 þúsund krónum áður verið ráðstafað til Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands.

NSA fylgdist með ferðum bandarískra þegna á vefsíðum

Bandarísk leyniþjónusta, NSA, kom fyrir forritlingum á síðum á Netinu til að fylgjast með ferðum bandarískra þegna um vefsíður, þrátt fyrir að hafa verið bannað að gera það. Þetta þykir reginhneyksli vestan hafs og bætir gráu ofan á svart fyrir Bush forseta, sem situr þegar undir ámæli fyrir að hafa árið 2002 heimilað NSA að lesa tölvupóst og hlera síma án dómsúrskurðar.

Mikil verslun á Netinu fyrir jólin vestan hafs

Það er ekki alveg ljóst hver jólagjöfin í ár var, en vestan hafs eru góðar líkur á að gjafirnar hafi verið keyptar á Netinu. Þvert á spár var nefnilega sprengja í viðskiptum á Netinu fyrir jólin og er talið að aukningin hafi numið tuttugu og fimm prósentum á milli ára. Keypt var fyrir rúma átján milljarða dollara á Netinu í nóvember og desember, samkvæmt New York Times, en það jafngildir nærri tólf hundruð milljörðum króna. Þetta voru því líkast til gleðileg jól hjá Netverslunum.

Mikill snjór í Danmörku

Einn maður lést og þrír slösuðust alvarlega þegar tveir bílar rákust saman vegna mikillar hálku í Danmörku í gær en snjóstormur sem farið hefur yfir Mið-Evrópu undanfarið er nú kominn þangað. Slysið varð í Vordingborg, um eitt hundrað kílómetra frá Kaupmannahöfn.

16 ára nemi á Flórída fór til Írak til að kynna sér ásandið það

Farris Hassan er sextán ára nemi frá Flórída með mikinn áhuga á fréttamennsku. Svo mikinn að í jólafríinu ákvað hann að sökkva sér ofan í viðfangsefni sitt. Það væri ekki í frásögur færandi væri viðfangsefnið ekki Írak. Farris keypti sér flugmiða án vitundar foreldra sinna og skrópaði í skóla til að kynna sér ástandið frá fyrstu hendi. Eftir ferðalag um Kúveit og Líbanon komst Farris til Bagdad þar sem hann dvaldi í nokkra daga.

Kona lést af völdum byssukúlu sem fór inn um glugga íbúðar hennar

Kona lést þegar byssukúlu sem skotið var út í loftið fór inn um glugga á íbúð hennar á fimmtu hæð í New York í gær. Eiginmaður hennar sem var í öðru herbergi þegar atburðurinn gerðist, fann konu sína þar sem hún lá í blóði sínu í svefnherberginu. Nágrannar sögðust hafa séð hóp af háværum og ölvuðum mönnum á götunni fyrir neðan húsið. Lögreglan vinnur nú að því að komast hver skotmaðurinn var.

Kveikt í rusli í sex ruslagámum

Slökkvilið Reykjavíkur hefur verið kallað út sex sinnum frá því um kvöldmatarleitið í gærkvöldi vegna elds í ruslagámum. Það er nokkuð mörg útköll en ástæðan er einkum sú að óprúttnir aðilar eru að kveikja á flugeldum og þvíumlíku í ruslagámunum með þeim afleiðingum að eldur brýst út. Eldurinn í ruslagámunum náði ekki að breyðast út en nokkuð tjón varð á gámunum. Ruslagámarnir sex sem kviknaði í eru staðsettir víða um borgina.

Alþjóðahús afhendir verðlaun

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson afhendir í dag kl. 15:30 í Alþjóðahúsinu, Jónu Hrönn Bolladóttur, Bjarna Karlssyni, Hope Knútsson, og Kramhúsinu viðurkenningu Alþjóðahúss fyrir lofsverða frammistöðu í málefnum innflytjenda á Íslandi.  Viðurkenningarnar eru veittar í þremur flokkum; einstaklingur af innlendum uppruna, einstaklingur af erlendum uppruna, og fyrirtæki eða stofnun.

Hækkun hlutabréfa langt umfram spár

Hækkanir á skráðum hlutabréfum í Kauphöll Íslands hafa aldrei verið meiri á einu ári en á árinu 2005. Forstjóri Kauphallarinnar segir erfitt að spá um hvernig næsta ár þróast.

Svifryk yfir heilsuverndarmörkum á gamlárskvöld

Svifryk í borginni fer yfir heilsuverndarmörk á annasamasta tíma hinna skotglöðu á gamlárskvöld. Þetta kemur fram á vef umhverfissviðs Reykjavíkurborgar en þar á bæ búast menn við að 530 þúsund flugeldar seljist að þessu sinni og um 90 þúsund blys.

Hlutverk stjórnenda þurfa að vera skýr

Mikilvægi þess að hlutverk stjórnenda séu skýr og óhæði stjórnarmanna er meðal þess sem tekið er á í endurskoðuðum reglum um stjórnarhætti fyrirtækja.

Heimilt að fella allt að 909 hreindýr á næsta ári

Umhverfisráðuneytið hefur heimilað að veiða allt að 909 hreindýr á tímabilinu 1. ágúst til 15. september 2006, auk hreindýrakálfa sem fylgt hafa felldum kúm, en þá skal fella sé þess kostur. Þessi heimild er veitt með fyrirvara um að ekki verði verulegar breytingar á stofnstærð fram að veiðum sem kalli á endurskoðun fjölda veiðiheimilda.

Fimm látnir í eldum í Texas og Oklahoma

Að minnsta kosti fimm manns hafa látið lífið í eldum sem geisað hafa í Texas og Oklahoma í Bandaríkjunum. Talið er að þeir hafi kviknað út frá fikti barna en nú þegar hafa nærri 200 hús orðið eldinum að bráð og þúsundir ekra af ræktarlandi hafa brunnið.

Forsætisráðherra hafði ekki samráð við stjórnarandstöðu

Þingflokkar Samfylkingarinnar og Vinstri - grænna vilja að þingið verði kallað saman á morgun eða hinn, til að fresta gildistöku úrskurðar Kjaradóms um hækkun launa þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna. Formenn flokkanna segja rangt að forsætisráðherra hafi haft samráð við formenn þingflokkanna áður en hann ákvað að biðja formann Kjaradóms að endurskoða úrskurð sinn frá nítjánda desember.

Leikskólakennarar í Kraganum krefjast launaleiðréttingar

Óánægja leikskólakennara í sveitarfélögunum í kringum Reykjavík fer vaxandi og þeir krefjast þess að laun þeirra verði leiðrétt hið fyrsta. Þegar hafa ellefu kennarar á leikskóla á Seltjarnarnesi sagt upp störfum og frekari uppsagnir eru yfirvofandi bæði í þessum sveitarfélögum og í Reykjavík um áramótin verði ekki orðið við kröfum leikskólakennara um kjaraleiðréttingu.

Avion kaupir fjórar Boeing 777

Avion Group gekk í dag frá kaupum á fjórum Boeing 777 vélum fyrir röska sextíu milljarða króna. Félagið hefur þar með samið um kaup á átta slíkum vélum og fær þær afhentar á undan flestum öðrum. Vélarnar verða einkum notaðar í flug á milli Evrópu og Asíu.

OR afhenti jólaskreytingarverðlaun í dag

Iðnustu skreytingamenn landsins fengu í dag viðurkenningu fyrir að lífga upp á borgina um jólin með ævintýralegum skreytingum af ýmsum toga. Venju samkvæmt hefur Orkuveita Reykjavíkur valið bestu jólaskreytingarnar í þeim bæjarfélögum sem veitusvæði Orkuveitunnar nær til. Í Reykjavík varð Urriðakvísl þrjú fyrir valinu og eins og sjá má á þessum myndum var það ekki að ástæðulausu. Fjölbreyttar ljósaskreytingarnar féllu vel í kramið hjá dómnefndinni.

Tvær og hálf milljón söfnuðust til styrktar SKB

Rúmlega tvær og hálf milljón söfnuðust á styrktartónleikum sem haldnir voru í Háskólabíói í kvöld til styrktar SKB eða Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna. Tónleikarnir eru orðnir að árvissum viðburði og fara fram við hver áramót.

Íhuga að bjóða fram foreldralista vegna leikskólavanda

Foreldrar leikskólabarna í Kópavogi ræða nú í fullri alvöru um að bjóða fram sérstakan foreldralista í bæjarstjórnarkosningum. Fjórir fílefldir starfsmenn hafa þó ráðist til starfa á leikskólann Dal en til stóð að loka deildum á skólanum sökum manneklu. Einn er sonur starfsmannastjóra bæjarins, annar dóttir fræðslustjórans og tveir eru fyrrverandi starfsmenn verktakafyrirtækis bæjarstjórans.

Stórskotahríð á norðurhluta Gaza-svæðisins

Ísraelar hófu í nótt stórskotahríð á norðurhluta Gaza-svæðisins, til þess að hindra að Palestínumenn geti notað það til eldflaugaárása á ísraelsk landsvæði. Í morgun tóku skriðdrekar við af stórskotaliðinu.

Skæður sjúkdómur

Skelfilegur sjúkdómur drepur þúsundir manna í Suður-Súdan, án þess að hjálparstofnanir fái rönd við reist. Sjúkdómurinn ræðst á ónæmiskerfið eins og alnæmi en til eru lyf við honum.

Ellefu manns í prófkjöri framsóknarmanna í Reykjavík

Ellefu manns gefa kost á sér í prófkjöri framsóknarmanna í Reykjavík sem fram fer 28. janúar næstkomandi, en framboðsfrestur rann út kl. 16 í dag. Þrír gefa kost á sér í fyrsta sætið, Anna Kristinsdóttir borgarfulltrúi, Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra og Óskar Bergsson húsasmíðameistari.

Vélsleðamaður slasast í Fjörðum

Björgunarsveiti Landsbjargar á Akureyri og Grenivík voru kallaðar út á fjórða tímanum í dag. Vélsleðamaður hafði slasast í Fjörðum, norðan Grenivíkur. Fyrstu björgunarmenn voru komnir á slysstað hálftíma síðar og fyrsti björgunarbíll kom á slysstað tíu mínútum á eftir björgunarmönnum. Búið var um hinn slasaða og hann fluttur til byggða þar sem sjúkrabíll beið hans og flutti til Akureyrar.

Sjá næstu 50 fréttir