Innlent

Fiskafli hefur minnkað um 5% frá því í fyrra

Mynd/Nordic Photos/Getty Images

Fiskafli hefur minnkað ár frá ári og er nær 5% minni á þessu ári en í fyrra. Rækjuafli hefur ekki verið minni í aldarfjórðung. Heildarafli ár er um 500 þúsund tonnum minni en hann var árið 2002 og hefur stigminnkað undanfarin ár. Verðgildi aflans hefur þó ekki dregist saman sem þessu nemur þar sem stöðugt er reynt að auka verðmæti þeirra tonna sem þó eru veidd. Aflinn í ár er sá minnsti í tíu ár eða síðan árið 2005 þegar hann nam 1.605 þúsund lestum en í ár var hann 1.667 þúsund lestir. Aflinn er um 5% minni en í fyrra en verðgildi hans hefur hinsvegar ekki lækkað nema um rétt tæp 3% þó vissulega muni um minna í þessari helstu útflutningsgrein okkar Íslendinga. Gengi krónunnar hefur þó gert útgerðinni stóran grikk á árinu en krónan hefur styrkst um rúm tíu prósent á árinu og minnkar útflutningsverðmæti því sem næst sem því nemur. Afli hefur minnkað í langflestum tegundum en þó sækja bæði loðnan og síldin talsvert í sig veðrið. Talsvert munar um að í ár veiddist um fjórum sinnum minni rækja en í fyrra og kolmunaafli hefur einnig minnkað um nær 40 af hundraði. Eina tegundin sem hefur stöðugt sótt í sig veðrið undanfarin ár er ýsan en í ár veiddist nær helmingi meiri ýsa en árið 2002.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×