Erlent

Kuldinn á skjálftasvæðunum í Pakistan er að verða fólkinu óbærilegur

Kuldinn á skjálftasvæðum í Pakistan er að verða óbærilegur. Hundruð þúsunda manna hafast við í tjöldum og margir hafa hvorki dýnu, teppi né hlý föt. Um tvö þúsund manns búa í Norul tjaldbúðunum nálægt héraðshöfuðborginni Muzaffarabad í Kasmír. Á nóttunni fer hitastig vel niður fyrir frostmark. Brátt fer að snjóa. Stærsta vandamálið er að það eru engin rúm, engar dýnur, engin teppi, segja þeir sem þarna búa. Þetta eru ekki vetrartjöld svo líklegt er að ástandið versni enn á næstu dögum og vikum þegar snjórinn fer að hlaðast upp. Undanfarið hefur verið óvenju milt veður og það hefur gefið hjálparstarfsmönnum tíma til að koma hjálpargögnum upp í fjöllin, einkum til þeirra sem búa efst þar sem fyrst fer að snjóa. Hálf milljón manna býr fyrir ofan fimmtán hundruð metra. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur flutt miklar matarbirgðir upp í fjöllin. Starfsmenn hennar segja það mikla mildi að enn skuli ekki vera farið að snjóa - en að búast megi við því að vetur fari að hefjast fyrir alvöru á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×