Erlent

Stórskotahríð á norðurhluta Gaza-svæðisins

Ísraelskir hermenn og hertól rétt fyrir utan norðurhluta Gasastrandarinnar þar sem gerð var stórskotaliðsárás í nótt.
Ísraelskir hermenn og hertól rétt fyrir utan norðurhluta Gasastrandarinnar þar sem gerð var stórskotaliðsárás í nótt. MYND/AP

Ísraelar hófu í nótt stórskotahríð á norðurhluta Gaza-svæðisins, til þess að hindra að Palestínumenn geti notað það til eldflaugaárása á ísraelsk landsvæði. Í morgun tóku skriðdrekar við af stórskotaliðinu.

Þetta þykir hörmulegur endir á þeirri friðarþróun sem menn vonuðust eftir þegar Ísraelar fluttu landnema sína frá Gaza svæðinu. Palestínskir skæruliðar hafa undanfarna daga notfært sér þennan brottflutning til þess að komast nær ísraelskum byggðakjörnum með eldflaugar sínar.

Árásir þeirra eru í óþökk palestinsku heimastjórnarinnar, og Mahmúd Abbas, leiðtogi Palestínumanna hefur reynt að fá skæruliðana til þess að láta af eldflaugaárásum. Abbas hefur hins vegar ekki látið sverfa til stáls og Ísraelar segja að fyrst hann geti það ekki verði þeir að taka það að sér.

Þeir hafa því lýst yfir varnarbelti á norðurhluta Gaza-svæðisins og varað Palestínumenn við að fara inn á það svæði. Til þess að leggja áherslu á viðvaranirnar er haldið uppi stórskotahríð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×