Innlent

Heimilt að fella allt að 909 hreindýr á næsta ári

MYND/Reimar
Umhverfisráðuneytið hefur heimilað að veiða allt að 909 hreindýr á tímabilinu 1. ágúst til 15. september 2006, auk hreindýrakálfa sem fylgt hafa felldum kúm, en þá skal fella sé þess kostur. Þessi heimild er veitt með fyrirvara um að ekki verði verulegar breytingar á stofnstærð fram að veiðum sem kalli á endurskoðun fjölda veiðiheimilda. Umhverfisstofnun getur heimilað tarfaveiði frá 15. júlí, en þó með þeim fyrirvara að fram til 1. ágúst séu tarfar ekki veiddir ef þeir eru í fylgd með kúm eða ef veiðar trufla kýr og kálfa í sumarhögum.

Veturgamlir tarfar eru alfriðaðir og miðast tarfaveiði því við tveggja vetra og eldri tarfa. Hreindýraveiðar eru óheimilar fyrir 15. ágúst 2006 á svæði sem afmarkast af austurbakka Jökulsár í Fljótsdal að Laugará, með Laugará að Hölkná, og þaðan í beinni línu í topp á Urgi, í Tungusporð, Búrfellstopp og að ósi Dysjarár. Vesturmörk fylgja síðan Jökulsá á Brú að Jökli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×