Fleiri fréttir

Læknaði ísbjörn af tannpínu

Fyrir flesta er auðvelt að skreppa til tannlæknis ef tannpína gerir vart við sig. Málið flækist hins vegar nokkuð þegar 400 kílógramma ísbjörn á í hlut. Einn stærsti íbúinn í dýragarðinum í Moskvu hefur undanfarið verið hálflystarlaus eftir að hann fór að finna fyrir eymslum í tönnunum. Því var bugðið á það ráð að kalla til breskan tannlækni sem sérhæfir sig í að gera við tennur í dýrum til þess að losa ísbjörninn stóra við Karíus og Baktus.

Sjö látnir í mótmælum í Afganistan

Alls hafa sjö manns látist og nærri 80 slasast í átökum lögreglu og mótmælenda í Afganistan undanfarna daga. Eftir að það kvisaðist út að fangaverðir í herstöðinni á Guantanamo-flóa á Kúbu hefðu vanhelgað Kóraninn hefur gríðarleg reiði brotist út í Afganistan og fólk mótmælt á götum úti.

Mannfjöldanum ekki viðhaldið

Fæðingar á Íslandi eru færri en svo að þær dugi til að viðhalda mannfjöldanum. Þetta er samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofu Íslands um fæðingar á Íslandi. Undanfarin fimm ár hefur frjósemi hverrar íslenskrar konu verið undir þeim viðmiðum sem höfð eru. Þó er frjósemi meiri hér en almennt á Vesturlöndum og sú mesta í Evrópu að Tyrklandi undanskildu.

Fljótlega í dýrlingatölu

Jóhannes Páll páfi annar fær flýtimeðferð og verður tekinn í dýrlingatölu fljótlega, að sögn eftirmanns hans, Benedikts sextánda. Hann lýsti því yfir við presta kaþólsku kirkjunnar að hann hefði vikið til hliðar reglunni um að fimm ár þurfi að líða áður en undirbúningur að því að taka menn í dýrlingatölu hefjist.

Khodorkovskí á von á fleiri ákærum

Saksóknarar í Rússlandi segja nýjar ákærur á hendur auðkýfingnum Míkhaíl Khodorkovskí væntanlegar. Khodorkovskí bíður nú dóms vegna skattaundanskots og fjárdráttar. Dóms í því máli er að vænta á mánudaginn kemur en saksóknarar hafa farið fram á  tíu ára fangelsisdóm.

Stofna félag um stóriðju

Blása á til sóknar í stóriðjumálum á Norðurlandi. Stofnfundur félags með þetta markmið verður á Akureyri á þriðjudag. Í yfirlýsingu frá hópnum segir að mikið sé af óbeislaðri orku bæði í fallvötnum og jarðvarma. Félagið ætlar að beita sé með beinum og óbeinum hætti fyrir því að þessi orka verði beisluð og nýtt til eflingar atvinnulífs.

Taldir hafa flegið ungan dreng

Tveir menn hafa verið handteknir í Tansaníu grunaðir um að hafa myrt 9 ára gamlan dreng og selt húðina af honum fyrir 18 dollara. Húðin var notuð í lukkugripi sem þarlendur töframaður bjó til. Lögreglan komst á snoðir um málið eftir að mennirnir lentu í háværu rifrildi þar sem annar þeirra sakaði hinn um að ætla að drepa sig og flá.

Lithimnuskönnun á flugvelli

Farþegar á leið í sumarfrí á Flórída mega búast við annars konar eftirliti á flugvellinum en hingað til. Alþjóðaflugvöllurinn í Orlando er fyrsti flugvöllurinn sem tekur upp lithimnuskönnun til að reyna að bera kennsl á grunaða hryðjuverkamenn. Þeir sem eiga leið um völlinn stilla sér upp fyrir framan skanna og horfa í spegil á meðan lithimnan er lesin inn.

Næstfrjósamastir í Evrópu

Fæðingartíðni á Íslandi er komin niður fyrir það mark sem þarf til að viðhalda mannfjöldanum. Aðeins í Tyrklandi er þó frjósemi meiri en hér á landi af Evrópuríkjunum.

Samið við Kína um fríverslun

Ísland verður að öllum líkindum fyrsta ríkið í Evrópu sem mun gera fríverslunarsamning við Kína. Davíð Oddsson utanríkisráðherra og Bo Xilai, utanríkisviðskiptaráðherra Kína, hafa undirritað samkomulag milli landanna sem er undanfari fríverslunarviðræðna.

Færri herstöðvum lokað en til stóð

Herstöðvum Bandaríkjamanna á heimavelli verður fækkað mun minna en til stóð. Áhrifin á Keflavíkurstöðina eru óljós en fjölmargar tillögur hafa verið lagðar fram um framtíðarfyrirkomulag stöðvarinnar.

Fjölmenn mótmæli í Úsbekistan

Þúsundir mótmæla eftir að meintir íslamskir öfgamenn slepptu hundruðum fanga í Úsbekistan í morgun. Vísbendingar eru um að mótmælendur séu þó ekki andstæðingar öfgamannanna meintu heldur beinist mótmælin að stjórnvöldum.

Von á dómi vegna HIV-máls í Líbíu

Hæstiréttur í Líbíu mun í dag skera úr um hvort fimm búlgarskir hjúkrunarfræðingar og einn palestínskur læknir, sem dæmdir eru fyrir að sýkja börn þar í landi af HIV-veirunni, muni verða líflátnir. Sexmenningarnir voru dæmdir til dauða í mars síðastliðnum en þeir áfrýjuðu. Að minnsta kosti 380 börn sýktust af HIV þegar þau fengu sýkt blóð á spítala í borginni Benghazi þar í landi.

Góð veðurspá fyrir helgina

Prýðis ferða- og útvistarveður verður um hvítasunnuhelgina sem er fyrsta stóra ferðahelgi sumarsins. Fullvíst má telja að tugir þúsunda verði á faraldsfæti. Lögreglan á Selfossi býst við mikilli umferð um sitt umdæmi enda mikil sumarbústaðabyggð þar auk þess sem margir eiga væntanlega leið í gegnum umdæmið.

Hermenn skjóta á mótmælendur

Hermenn skutu á þúsundir mótmælenda í bænum Andijan í Úsbekistan í dag en mótmælendurnir kröfðust afsagnar Islams Karimovs, sem hefur setið á stóli forseta um árabil. Ekki er enn vitað hversu margir eru látnirr en skotið var af pallbíl sem hermennirnir voru á. Ástæða mótmælanna er sögð sú að múslímar sem ekki sætta sig við ríkisútgáfu trúarinnar eru hnepptir í fangelsi og kúgaðir.

Guðjón hættur hjá Keflavík

Guðjón Þórðarson, þjálfari Keflvíkinga í knattspyrnu, tilkynnti forsvarsmönnum félagsins fyrir stundu að hann hefði rift samningi sínum. Ástæðan sem hann gaf upp eru vanefndir á samningi. Rætt verður við Guðjón í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Íranar búi brátt yfir tækni

Íranar munu búa yfir tækniþekkingu til að smíða kjarnorkusprengju innan sex til níu mánaða. Þetta sagði Silvan Shalom, utanríkisráðherra Ísraels, í útvarpsviðtali í Ísrael í dag. Ísraelar, sem talið er að eigi um 200 kjarnorkusprengjur, óttast mjög að Íranar komist sér upp kjarnavopnum því þeir eru mjög andvígir Ísraelsríki.

Skærur milli Ísraela og Hizbollah

Til átaka kom á milli Hizbollah-skæruliða og ísraelskra hermanna nærri landamærum Ísraels og Líbanons í dag. Að sögn talsmanna skæruliðasamtakanna var sprengikúlum skotið á bækistöð Ísraelshers nærri landamærunum til þess að hefna fyrir árásir Ísraela, eins og það er orðað, og svöruðu ísraelskir hermenn með því að skjóta á hæðir nærri líbönskum landamærabæ þar skæruliðahópurinn hefur stöðvar.

Sýknað af kröfum tóbaksfyrirtækja

Íslenska ríkið var í dag sýknað af kröfu British American Tobacco Nordic í Finnlandi og British American Investment í Bretlandi en stefnendur kröfðust viðurkenningar dómstóla á því að takmarkanir í tóbaksvarnarlögum frá árinu 2001 um sýnileika brytu í bága við eignarréttarákvæði, tjáningarfrelsisákvæði og atvinnufrelsisákvæði. Héraðsdómur var þó ósammála stefnendum og sýknaði ríkið.

Meirihluti fylgjandi stjórnarskrá

Naumur meirihluti Frakka hyggst samþykkja stjórnarskrá Evrópusambandsins samkvæmt nýjustu skoðanakönnuninni sem birt var í dag. Hún var gerð fyrir dagblaðið <em>Le Monde</em>,<em> RTL-útvarpsstöðina</em> og sjónvarpsstöðina <em>LCI</em>. Samkvæmt henni ætla 52 prósent aðspurðra að haka við já á kjörseðlinum 29. maí næstkomandi en 48 prósent segjast munu hafna stjórnarskránni.

Níu látnir í mótmælum í Afganistan

Að minnsta kosti níu manns hafa látist í mótmælum í Afganistan í dag, en mótmælendur fóru út á götur fjórða daginn í röð í kjölfar frétta af því að bandarískir hermenn hefðu vanhelgað Kóraninn í fangabúðunum á Guantanamo-flóa við Kúbu þar sem hundruð Afgana eru í haldi. Fréttir berast af átökum milli mótmælenda og hers og lögreglu víða í landinu, en mótmælin hófust í kjölfar föstudagsbæna múslíma.

Sauðburður á fullt í Laugardalnum

Sauðburður er hafinn í Húsdýragarðinum í Laugardal og hafa þrjár ær af níu þegar borið. Ærin Söðulkolla var fyrst til að bera þetta vorið þegar hún bara tveimur lambhrútum aðfaranótt 30. apríl. Fréttir af því voru ekki sendar út strax að burði loknum þar sem Söðulkolla afneitaði öðru lambinu en hún hefur nú tekið það í sátt.

Eigi enn á hættu illa meðferð

Amnesty International segir fanga í haldi Bandaríkjamanna í Írak og víðar enn eiga á hættu illa meðferð þrátt fyrir mikla umræðu vegna hneyklisins í Abu Ghraib fangelsinu fyrir ári. Í tilkynningu frá samtökunum segir að ríkisstjórn George Bush Bandaríkjaforseta sýni lítinn sem engan vilja til að hlýða alþjóðalögum og lítinn vilja til að reyna að gera betur í sínum málum.

Norðmenn fá Konungasögur að gjöf

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra mun á fundi með Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, sem haldinn verður á morgun afhenda norsku þjóðinni gjöf Íslendinga í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að Norðmenn öðluðust sjálfstæði og norska konungdæmið var endurreist. Gjöfin er 500 eintök af Konungasögum í fjórum bindum með norskum inngangi. Áætlaður kostnaður við verkið er 14-16 milljónir króna.

Atvinnuleysi minnkar enn

Atvinnuleysi í apríl var 2,3 prósent samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar og hefur ekki mælst jafnlítið í þessum mánuði síðan árið 2001, en þá mældist það 1,6 prósent. Alls voru skráðir rúmlega 74.200 atvinnuleysisdagar á landinu öllu í síðasta mánuði sem jafngildir því að 3.542 manns hafi að meðaltali verið á atvinnuleysisskrá í mánuðinum.

Fórst í bruna í Stokkhólmi

Hin heimsþekkta sænska söng- og leikkona Monica Zetterlund fórst í eldsvoða í Stokkhólmi í fyrradag. Eldur kom upp í íbúð hennar í miðborg Stokkhólms og var Zetterlund látin þegar slökkvilið kom á vettvang. Hún var fötluð og bundin í hjólastól síðustu ár ævinnar.

Ákærður fyrir að misnota drengi

Saksóknari í Danmörku hefur krafist þess að Flemming Oppfeldt, fyrrum þingmanni Venstre, verði bannað að umgangast börn undir 18 ára aldri. 

Danir vilja draga úr gosþambi

Meirihluti er fyrir því í danska þinginu að gefa út opinbera tilskipun þess efnis að ungmenni undir 18 ára aldri ættu ekki að drekka meira en hálfan lítra af gosdrykkjum á viku. 

Áfellisdómur fyrir ákæruvaldið

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Lettanna sem voru sýknaðir í Héraðsdómi Austurlands í gær, segir að með þessum dómi sé í fyrsta sinn tekið almennilega á álitaefnum varðandi útlendinga frá Eystrasaltsríkjunum.

Norðmenn skera herinn niður

Norska ríkisstjórnin hefur ákveðið að skera niður fjárframlög til hermála á þessu ári um nærri sex milljarða íslenskra króna. 

Forsendur bresta í haust

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, telur að forsendur kjarasamninga bresti í haust þó að vísitala hafi lækkað upp á síðkastið. Húsnæðisverð hafi haldið áfram að hækka, verðstríð hafi geisað og gengið lækkað.

Lettarnir eru fórnarlömb

Dómurinn á Austurlandi tekur hvorki á því hvort lög um atvinnuréttindi útlendinga né lög um útlendinga hafi verið brotin, aðeins því hvort Lettarnir hafi haft rétt til að vinna hér á landi eða ekki. Því eru Lettarnir sýknaðir.

Lettarnir voru sýknaðir

Lettarnir tveir sem komu hingað til lands á vegum lettnesku starfsmannaleigunnar Vislande til að aka rútu fyrir GT verktaka á Kárahnjúkum voru sýknaðir í Héraðsdómi Austurlands í gær en þeir voru ákærðir fyrir að starfa hér á landi án atvinnuleyfis. </font /></b />

Viðgerðin kostar 60 milljónir

Guðmundur Hjaltason, forstjóri Kers, segir að áætlanir geri ráð fyrir að það kosti 60-70 milljónir króna að gera við Þórshamarshúsið á Seyðisfirði. Ekki hafi tekist að finna því hlutverk og því hafi ekki verið tekin ákvörðun um viðgerðir.

Uppsagnir hjá norska Dagblaðinu

Miklar sviptingar eru nú á norskum blaðamarkaði og fyrir helgi tilkynnti stjórn Dagblaðsins, eins stærsta síðdegisblaðsins, að segja yrði upp 89 manns vegna mikils taps á rekstri blaðsins. 

Sjávarútvegurinn skiptir ekki máli

"Það er ástæða fyrir því að Síldavinnslan hefur ákveðið að hætta vinnslu á þorski í landi," segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupsstað.

Áfram neyðarástand í Írak

Ibrahim al-Jaafari, forsætisráðherra Íraks, lýsti í dag yfir áframhaldandi neyðarástandi í landinu í mánuð til viðbótar. Mjög róstusamt hefur verið í landinu að undanförnu og fjölmargar sjálfsmorðsárásir hafa verið gerðar á síðustu tveimur vikum, en alls hafa um 400 manns fallið í þeim.

Útlendingastofnun sökuð um óreiðu

Stéttarfélagið Efling sakar Útlendingastofnun um óreiðu í meðferð gagna. Sendir allar umsóknir um atvinnuleyfi með leigubílum til öryggis. Útlendingastofnun segir gagnrýnina ómálefnalega og koma á óvart. </font /></font />

Ók á lögregubíl á mikilli ferð

Lögreglubíll endaði úti í skurði eftir að ökumaður, sem grunaður er um ölvun, ók á mikilli ferð á hann þegar lögregla hugðist ná tali af manninum. Lögreglan á Akranesi var í gærkvöldi beðin um að svipast um eftir manni sem farið var að sakna og fann hún bílinn og hélt í átt að honum. Þegar lögreglubifreiðin nálgaðist ók maðurinn af stað á móti lögreglubifreiðinni og beint framan á hana á mikilli ferð, en bílarnir voru á þröngum malarvegi þar sem ekki er hægt að mætast.

Fundu tólf tonn af kókaíni

Kólumbísk yfirvöld hafa lagt hald á tólf tonn af kókaíni síðustu daga í samræmdum aðgerðum sjóhers og lögreglu gegn útlögum í hægriöfgasinnaðri hersveit, en efnið hafði verið falið á bökkum árinnar Miru í suðurhluta landins. Þá handtóku lögreglumenn fimm menn og lögðu hald á níu riffla, fjarskiptatæki og átta báta í aðgerðunum sem lauk snemma í morgun.

Skarst frá nefi í munn

22 ára gamall maður var á fimmtudag dæmdur í hálfsársfangelsi fyrir að slá annan mann, 25 ára að aldri, með glerflösku í andlitið þannig að hún brotnaði og sá hlaut djúpan 5 sentímetra langan skurð frá nefi og niður að vör.

Tekinn á 173 í Ártúnsbrekku

Lögreglan í Reykjavík stöðvaði 18 ára ökumann á 173 kílómetra hraða í Ártúnsbrekku klukkan að ganga tólf í gærkvöldi. Í brekkunni er hámarkshraði 80 kílómetrar á klukkustund.

Ólík viðbrögð við mótmælum

Bandarísk stjónvöld hvöttu bæði stjórnvöld og mótmælendur í Úsbekistan til þess að halda ró sinni en Evrópusambandið sakaði hins vegar úsbesk stjórnvöld að virða ekki mannréttindi í kjölfar upplausnarástands í landinu í dag. Úsbeskir hermenn skutu í dag á mótmælendur sem söfnuðust saman í borginni Andijan til stuðnings uppreisnarmönnum sem höfðu lagt undir sig stjórnarbyggingu og héldu lögreglumönnum í gíslingu.

Skjálftahrina gengin niður

Jarðskjálftahrinan sem hófst á Reykjaneshrygg er að mestu gengin niður þótt þar finnist enn stöku skjálfti, að sögn Steinunnar S. Jakobsdóttur, deildarstjóra eftirlitsdeildar Veðurstofunnar.

Sjá næstu 50 fréttir