Innlent

Næstfrjósamastir í Evrópu

Fæðingartíðni á Íslandi er komin niður fyrir það mark sem þarf til að viðhalda mannfjöldanum. Aðeins í Tyrklandi er þó frjósemi meiri en hér á landi af Evrópuríkjunum. Þetta kemur fram í hefti um fæðingar á Íslandi 1871-2004 sem Hagstofan hefur gefið út. Þar segir að 4.234 börn hafi fæðst hér á landi árið 2004. Yfirleitt er miðað við að frjósemin þurfi að vera um 2,1 barn til þess að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma litið. Undanfarin fimm ár hefur Ísland legið nokkuð undir þessu viðmiði og árið 2004 mældist frjósemin tvö börn á ævi hverrar konu. Á 20. öldinni varð frjósemi hér á landi mest undir lok 6. áratugarins en þá voru lifandi fædd börn á ævi hverrar konu um 4,2. Frjósemi minnkaði mjög ört á 7. áratugnum og fór niður fyrir þrjú börn um 1970 og varð lægri en tvö börn um tveggja ára skeið um miðbik níunda áratugarins. Aðeins rúmlega þriðjungur barna á Ísland fæðist nú innan hjónabands, eða 36,3 prósent, en tæplega helmingur innan óvígðrar sambúðar foreldra. Talsverður munur er á hjúskapar- og sambúðarstöðu mæðra eftir því hvar í systkinaröðinni barnið er. Eftir því sem ofar dregur í systkinaröðinni fjölgar börnum sem fæðast innan hjónabands og börnum sem eiga foreldra í óvígðri sambúð fækkar að sama skapi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×