Erlent

Ólík viðbrögð við mótmælum

Bandarísk stjónvöld hvöttu bæði stjórnvöld og mótmælendur í Úsbekistan til þess að halda ró sinni en Evrópusambandið sakaði hins vegar úsbesk stjórnvöld að virða ekki mannréttindi í kjölfar upplausnarástands í landinu í dag. Úsbeskir hermenn skutu í dag á mótmælendur sem söfnuðust saman í borginni Andijan til stuðnings uppreisnarmönnum sem höfðu lagt undir sig stjórnarbyggingu og héldu lögreglumönnum í gíslingu. Alls er talið að um níu manns hafi fallið í skothríðinni. Talsmaður Hvíta hússins sagðist skilja að Úsbekar vildu lýðræðislegri stjórn en slíku ætti að koma á með friðsamlegum hætti, ekki ofbeldi. Evrópusambandið skellti hins vegar skuldinni alfarið á stjórnvöld í Úsbekistan og sagði talsmaður sambandsins að mótmælin ættu rætur sínar að rekja til mannréttindabrota stjórnarinnar, en úsbeskir múslímar sem ekki sætta sig við ríkisútgáfu trúarinnar eru hnepptir í fangelsi og kúgaðir. Úsbekistan er bandamaður Bandaríkjanna í stríðinu gegn hryðjuverkum og þar er að finna bandaríska herstöð, en ástand mannréttinda er sagt þar mjög bágt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×