Innlent

Útlendingastofnun sökuð um óreiðu

Stéttarfélagið Efling hefur um alllangt skeið sent öll gögn, sem félagið þarf að senda Útlendingastofnun vegna atvinnuleyfa útlendinga, með leigubíl, vegna þess að stofnunin staðhæfði iðulega að gögnin hefðu ekki borist. Í síðasta fréttablaði Eflingar er harðorð grein um samskipti félagsins við Útlendingastofnun þar sem kvartað er undan virðingarleysi stofnunarinnar gagnvart því fólki sem hún á að þjónusta. Þar kemur fram að lögum samkvæmt á Efling að skila umsögn til Útlendingastofnunar um atvinnuleyfi innan tveggja vikna og segir Tryggvi Marteinsson þjónustufulltrúi að við það sé ávallt staðið. "Engu að síður hefur fólk komið hér árum saman til að leita að þessum pappírum vegna þess að starfsfólk Útlendingastofnunar fullyrðir að gögnin hafi ekki borist", segir Tryggvi. Hann segir þetta óþolandi framkomu gagnvart þeim útlendingum sem í hlut eiga því iðulega sé fólkið undir miklu álagi vegna þessara umsókna og ekki á það bætandi með áhyggjum af því að gögnin séu týnd. Ragnheiður Ólöf Böðvarsdóttir forstöðumaður stjórnsýslusviðs hjá Útlendingastofnun segir þessa gagnrýni koma sér mjög á óvart og vísar henni algjörlega á bug. "Við höfum alltaf reynt að eiga gott samstarf við verkalýðsfélögin og okkur finnst þetta mjög ómálefnaleg gagnrýni", segir hún. Mikið álag er á Útlendingastofnun að sögn Ragnheiðar og berast tugir umsókna til stofnunarinnar daglega. "Það segir sig sjálft að við verðum að hafa tíma til að skrá þessar umsóknir áður en við getum gefið fólki upplýsingar um það hvar þær eru staddar", segir hún. Hún fullyrðir að sá vandi sem lýst er í grein Eflingar sé stórlega orðum aukinn. "Auðvitað geta komið upp einhver vandamál í þessu eins og öðru en þau á auðvitað bara að leysa og betra væri að slíkt væri gert með samvinnu", segir Ragnheiður Ólöf.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×